Um Landbúnaðarsafn Íslands

Landbúnaðarsafn Íslands

er sjálfseignarstofnun sem formlega var stofnað 14. febrúar 2007. Stofnaðilar eru Landbúnaðarháskóli Íslands (LbhÍ), sveitarfélagið Borgarbyggð og Bændasamtök Íslands (BÍ). Í stjórn safnsins eiga sæti, auk fulltrúa áðurnefndra stofnana, þjóðminjavörður eða fulltrúi hans og fulltrúi tilnefndur af landbúnaðarráðherra.

 

Í núverandi stjórn safnsins sitja, skipaðir haustið 2014:

 

Björn Þorsteinsson, rektor fltr. LbhÍ (form), vm: Ragnhildur Helga Jónsdóttir. Ragnar Frank Kristjánsson, fltr. Borgarbyggðar, vm: Helgi Hauksson. Haraldur Benediktsson, fltr. Bændasamtaka Ísl., vm: Tjörvi Bjarnason.  Arna Björk Bjarnadóttir, fltr. landbúnaðarráðherra, vm: Níels Árni Lund.  Lilja Árnadóttir, fltr. þjóðminjavarðar, vm: Ágúst Georgsson.

 

Landbúnaðarsafn Íslands er á Hvanneyri í Borgarfirði. Safnstjóri frá 1. janúar 2017 er Ragnhildur Helga Jónsdóttir.

 

Hlutverk Landbúnaðarsafns

Í stofnsamþykktum safnsins segir svo um hlutverk þess:

 

Hlutverk Landbúnaðarsafns Íslands ses. er að gera skil sögu og þróun íslensks landbúnaðar með því að varðveita gögn, gripi og aðrar minjar um hana, og annast rannsóknir og fræðslu um viðfangsefnið. 

 

Landbúnaðarsafn Íslands ses. leggur sérstaka áherslu á sögu landbúnaðarins frá byrjun tæknialdar í landbúnaði með rannsóknum sem og almennri kynningu á sögu hans og stöðu og hvers konar miðlun hennar, ýmist eitt sér eða í samvinnu við aðila sem til hennar eru fúsir.

 

Í starfi sínu skal Landbúnaðarsafn Ísland ses. hafa samráð og samvinnu við  Þjóðminjasafn Íslands og aðra opinbera aðila er annast minjavernd og –vörslu í landinu, þ.m.t. byggðasöfn.

 

 

Safn á gömlum grunni

Landbúnaðarsafn Íslands er byggt á grunni Búvélasafnsins sem starfað hafði á Hvanneyri um langt árabil. Búvélasafnið rakti sögu sína til ársins 1940. Samkvæmt lögum nr. 64/1940 um rannsóknir í þágu landbúnaðarins skyldi þá komið upp safni af landbúnaðarverkfærum við Bændaskólann á Hvanneyri.

 

Lítið var lengi vel unnt að gera sakir fjárskorts. Guðmundur Jónsson skólastjóri bjargaði þó ýmsum verkfærum og hélt yfir þeim hlífiskildi.

 

Búnaðarfélag Íslands gaf safninu verðmæta gripi frá Ólafsdalsskólanum og frá búi Thors Jensen á Korpúlfsstöðum og fleirum bárust einnig ýmis verkfæri. Þessir gripir eru meðal merkustu gripa safnsins í dag.

 

 

Safnið opnað

Á árunum 1976-1980 var allmikið unnið að endurreisn og eflingu verkfærasafnsins. Til stóð að risa hús yfir það en fé skorti til framkvæmda. 

 

Búvélasafnið var fyrst opnað almenningi sumarið 1987, í smáum stíl þó. Þá höfðu starfsmenn Bútæknideildar Rannsóknastofnunar landbúnaðarins gert upp nokkrar vélar og útbúin hafði verið dálítil geymslu- og sýningaraðstaða, sem síðan hefur verið aukin og bætt.

 

Sýning safnsins var fyrst í Verkfærahúsinu á Hvanneyri, sem lengi hýsti búvélaprófanir Verkfæranefndar og síðar Bútæknideildar Rala, svo og vélfræðikennslustofu Bændaskólans og fleira (sjá uppdrátt hér að ofan).

 

Árið 2007 var safninu breytt á þann veg að mynduð var sjálfseignarstofnun um það eins og fyrr sagði. Um leið var nafni safnsins breytt og heitir það síðan Landbúnaðarsafn Íslands.

 

Síðsumars 2014 var safnið flutt í Halldórsfjós á Hvanneyri, sögumerka byggingu, sem reist var á árunum 1928-29. Þann 2. október 2014 var grunnsýning safnsins opnuð þar og einnig tekið í notkun nokkuð geymslurými þar í húsinu, auk fjölnotasalar í sk. Suðurhlöðu.

 

Síðustu 16 árin hefur safnið verið opið um ársins hring, og er á móti gestum tekið eftir þörfum og pöntun. Sumarmánuðina júní-ágúst hefur safnið verið opið daglega. Gestafjöldi á hverju ári hefur verið um fimm þúsund manns.

 

Þá hefur safnið  haldið úti heimasíðu frá árinu 2000, hún er nú  www.landbunadarsafn.is

 

 

Veitingar - Gæðahandverk

Með fyrirvara má panta veitingar í matstofu Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri (s. 433 5000). Á sumrin hefur verið rekið kaffihús í Skemmunni á Hvanneyri, elsta húsi staðarins, en það var byggt árið 1896.

 

Ullarselið (www.ull.is) er í móttökurými Landbúnaðarsafns Íslands; þar fáanlegt fínasta handverk héraðsins – og líklega landsins, einkum úr ull og öðrum íslenskum hráefnum.

 

Góð veitingahús og hressingarskálar eru í næsta nágrenni safnsins: Fossatún (10 km) og Landnámssetrið, Geirabakarí og Hótel Hamar í og við Borgarnes (12-13 km). 

 

Þá minnum við líka á Laxveiði- og sögusafnið í Ferjukoti, sem aðeins er í 6 km fjarlægð frá Hvanneyri.

 

 

Nánari upplýsingar um Landbúnaðarsafn Íslands

Nánari upplýsingar um Landbúnaðarsafn eru veittar í síma 844 7740.

 

Safnstjóri er Ragnhildur Helga jónsdóttir - GSM 844 7740, netfang ragnhildurhj@lbhi.is