21. október 2015 10:50

Sveinn Einarsson

Sveinn Einarsson (1909-1994) bóndi og hleðslumaður frá Hrjót í Hjaltastaðarþinghá er maður dagsins. Myndina gerði Páll Guðmundsson listamaður á Húsafelli úr rauðasteini þaðan, í ágúst 1993. Hún er í Landbúnaðarsafni Íslands. Þá var Sveinn kennari á hleðslunámskeiði á Hvanneyri en Páll í hópi nemenda. Sveinn var landsþekktur hleðslumaður.

Sveinn Einarsson er fulltrúi allra þeirra sem í aldanna rás reistu bæi, gripahús, túngarða, réttir, kvíar og fleira úr hinu íslenska byggingarefni, torfi og grjóti, með aðferðum sem kynslóðirnar höfðu mótað og tileinkað sér.
„ ... Það verk Sveins sem hefur komið fyrir augu flestra, er sennilega endurreisn Sænautasels í Jökuldalsheiði ... Við sem þekktum Svein og unnum með honum, lærðum af honum vinnuaðferðir sem tengdust íslenska torfbænum, sem er fyrirbæri sem hvergi er til nema hér. Nú kveðjum við þann mann sem sennilega hefur víðast farið um landið og flestum kennt. Ef til vill leiddi þessi hleðsluvinna hans til þess að áhugi, skilningur og kunnátta manna hefur aukist svo að einhverjir bæir gætu bjargast til viðbótar í landinu. Einnig er mikilvægt að hlífa þeim stöðum þar sem mannvistarleifar sjást á jörð, og beita ekki á slíkar rústir vélum og slétta úr, eins og oft hefur hent ...“
Auðun H. Einarsson í minningargrein um Svein í Mbl. 9. apríl 1994.