14. mars 2010

Á Ferguson TE A20 - búinn til kappaksturs

Heimsíðungur vonar að honum fyrirgefist ögn persónuleg hugleiðing að hluta í þetta skiptið. Þannig var nefnilega að þegar fyrst renndi grár Ferguson í hlað á æskuheimili hans vestrá Fjörðum hrópaði sumarstrákurinn að sunnan: Þetta er kappakstursbíll! (sjá bókina ...og svo kom Ferguson, bls. 174).

 

Þetta voru orð að sönnu og þeim til undirstrikunar er hér birt mynd sem hann Sigvaldi á Bakka sendi heimsíðungi á dögunum.

 

 

Þannig hagaði til að faðir Sigvalda, Þórður bóndi Jóhannsson á Bakka í Melasveit, átti Ferguson, og móðir hans, Rósa María Sigurgeirsdóttir, keypti herfi við Fergusoninn fyrir fé sem hún átti áður en hún hóf búsetu á Bakka. Hið gráa gripapar frá Koventrí varð e.t.v. upphafið að búskap ungu hjónanna. Fór vel á með báðum hvorum: Ferguson gekk til margra nytsemdarverka bæði með herfi og án, og Þórður og Rósa eignuðust langa auðnustund við góðbú sitt.

 

Ferguson slitnaði með verkunum sínum mörgu í þágu Rósu og Þórðar og börnin komu til sögunnar. Eitt þeirra, Sigvaldi, nú bóndi á Bakka, ákvað síðan á réttu augnabliki að gera Fergusyni til góða. Sparaði hann hvorki fé né fyrirhöfn við verkið með árangri sem sjá má á myndinni er fylgir þessum línum.

 

Grágljáandi stendur Ferguson nú þar á Bakka. Á myndinni sjáum við Sigvaldason, Árna Geir, sitja gripinn. Árni Geir hefur búið sig með hætti sem örugglega hefði glatt Harry Ferguson, Írann merka, sem bernskur var hallur undir hraðgeng farartæki svo sem flugvélar, og dreymdi á efri árum um landvinninga á brautum kappaksturs með ökutækjum sínum, að því er sögur herma.

 

Víst mundi Ferguson feginn hafa tekið sér far upp í Melasveit til þess að líta á gamla hugsmíð sína, sem þar hefur nú gengið í endurnýjun lífdaga. Heimsíðungi kæmi ekki á óvart að Harry gamli mundi þá sjá þá ótæmandi möguleika sem þar eru til rallaksturs um krúsir og melabörð, innan marka skynseminnar, eða til þess að leggja þar út væna kappakstursbraut skammt vestan við þjóðveg nr. 1, líkar þeim sem nú heita Silverstón, MarrakeS eða Monsa...

 

Má telja víst að Harry Ferguson mundi þá þegar ráða Árna Geir Sigvaldason sem sinn ´tsíf testin´ dræver´ til þess að fara fyrstu hringina á Ferguson TE A20, þeim hinum gráa er svo tryggum stoðum skaut undir farsælan búskap afa hans og ömmu þar á Bakka.

 

En allt um það: Sigvaldi á Bakka hefur hér með þakkarverðum hætti hlúð að íslensku búnaðarsögunni með varðveislu hinnar fornu dráttarvélar, rétt eins og margir aðrir.

 

Og þá er bara eftir að minna á að námkeiðið Fornvélar – meira en járn og stál verður haldið á Hvanneyri nk. laugardag, 20. mars.

 

Nánari upplýsingar um námskeiðið er að finna á www.lbhi.is/index.aspx?GroupID=894&TabID=900&eventId=415