3. mars 2010

Brúsapalla-blues

Glöggir lesendur heimasíðunnar minnast þess að um daginn var athygli beint að brúsapöllum - fornum samgöngumiðstöðvum sveitanna. Tilefnið var framtak Norðmanna til varðveislu brúsapalla sem menningarminja er stóran hlut eiga í byggðasögu margra sveita.

 

Umfjöllunin hér á síðunni barst austrí Flóa en þar búa m.a. heiðursmenn sem láta sig íslenska sveitamenningu mjög varða og vinna ötullega að varðveislu hennar.

 

Kjósa þeir til þess ýmis form allt eftir þörf og aðstæðum hverju sinni.

 

Þannig hefja þeir alþýðusöngva Fjárlaganna þegar það á við eða kveðast duglega á, blogga, auk þess að hampa góðum vísum hvers annars minnugir þess að góð vísa getur verið á við langa tölu.

 

Með öllu þessu hafa sumir þeirra svo neftóbak í misstórum skömmtum, allt frá korni eða tveimur yfir í stærri hleðslur,  eftir tilefni og nefrými.

 

Það var hann Ingi Heiðmar Jónsson organisti og kennari sem vakti athygli heimsíðungs á vísu Guðmundar Stefánssonar kúabónda í Hraungerði er fjallaði um brúsapallinn þar á bænum. Heimsíðungi þykir þar fara eins konar Brúsapalla-blues og stenst ekki mátið að birta hann hér, með fullu leyfi skáldsins.

 

Glöggir lesendur taka eftir því að stemningin, sem lýst er, minnir ögn á 3. blaðsíðu Íslandsklukkunnar, þar sem annar bóndi, Jón Hreggviðsson, situr klofvega á Þingvallakirkju og heggur tóverkið sem ber uppi klukkuna örmu er þar hafði húkt - einustu fémætu sameign íslensku þjóðarinnar:

 

Skáldið segir um tilurð vísunnar:

 

Þó 10 ár væru liðin frá tankvæðingu, þegar ég kom hingað að Hraungerði, þá kom það í minn hlut að rífa brúsapallinn.
Þá varð þetta til:

Þú gengdir hlutverki í atvinnulífinu áður,
á þér og við þig var margur leikurinn háður.
Nú stendurðu eftir, fúinn, feyskinn og smáður
og fljótlega verðurðu burtu af jörðinni máður.


 

GSt. 
 

Lesendur eru hvattir til þess að leggja varðveislu íslenskrar brúsapallamenningar áfram öflugt lið með hverjum þeim hætti sem til árangurs telst fallinn...