1. mars 2010

Fransmenn heiðra íslenska þúfnabanann

Í nýjasta hefti franska tímaritsins Tracteurs et monde agricole (No 102) er mikil grein um þúfnabanann - Lanz Landbaumotor LDM: le "Teur de mottes" heitir hún. Það er Henrý Kiljan Albansson sem skrifaði greinina. Hann er fæddur í Frakklandi en hefur búið á Íslandi um árabil og m.a. skrifað um íslensk málefni í frönsk blöð.

 

Blaðið Tracteurs ... er þekktasta blað Frakklands á sviði fornvéla og ýmiss annars er tengist landbúnaði. Um það má nánar fræðast á heimasíðunni www.pur-tracteur-passion.com

 

Þúfnabananum er sýndur þakkarverður heiður með umfjölluninni.

 

Jafnhliða tímaritsútgáfunni eru gerð líkön af hinum ýmsu forn-dráttarvélum sem sagt er frá í tímaritinu. Hafa þau reynst mjög vinsæl meðal safnara (sjá áðurnefnda heimasíðu) enda bráðvönduð og trúverðug að sjá.

 

Tímaritið er afar vandað að útliti og á skemmtilegu formi: með límdum kili og tvígatað þannig að árgangi má safna saman í snotra bók.

 

Við hlið þúfnabanans í nýjasta heftirnu eru greinar um forntraktorinn Sám (Someca 1300 DT - sem módel er nú fáanlegt af), tilraunatraktor af gerðinni Ford 2 og 4 strokka ... farand-kaupmanna-tækni fyrri tíðar og fleira.

 

Eini annmarkinn, sem heimsíðungur sá á tímaritinu, er að það er skrifað á frönsku. Þótt sjálfur sé hann alinn upp við síðustu leifar haukadals-fönsku í Dýrafirði dugði hún honum skammt við lesturinn - eiginlega ekkert.

 

Hér er því ekki um annað að gera en að snara sér í frönskunám og orðabókaleik. Í tímaritinu Tracteurs et monde agricole  er sýnilega á ferð náma fróðleiks um fornvélar og landbúnaðarsögu.

 

Henrý Kiljan Albansson fær bestu þakkir fyrir greinina og kynningu sína á íslenska þúfnabananum meðal franskra fornvéla-áhugamanna ...