23. febrúar 2010

Fyrsti (Ferguson-) sturtuvagninn á landinu?

Heiðursmaður sendi heimsíðungi ljósmynd af Ferguson og vökvastýrðum sturtuvagni. Sterkur grunur leikur á að þar fari Ferguson-sturtuvagninn sem sýndur var á Keldum í Mosfellssveit á Ferguson-kynningunni frægu í maí 1949.

 

Að sönnu mun vera búið að gera vagninum til góða eins og sleggjunni hans afa sem búið var að skipta um skaft á þrisvar og skalla tvisvar ...

 

 

Lauslegur samanburður ljósmynda bendir til upprunans. Sé svo gæti þar farið fyrsti sturtuvagn fyrir dráttarvél sem til landsins kom. Þeir áttu eftir að koma margir og verða bændum að ómældu gagni - ekki síst með samstarfi við moksturstækin: gerbreyttu raunar vinnu við flutninga.

 

Við þurfum að kanna þessa sögu nánar, og því er ekki rétt að vera með neinar fullyrðingar.

 

Traustur heimildarmaður segir vagninum hafa skolað nýjum út í Flatey þar sem hann varð eyðingaröflum að bráð en eigendum sínum að litlu gagni. Það var ekki vegna takmarkana vagnsins heldur veltings þjóðfélagsins og byggðaröskunar.

 

En vagninn bætti það upp með góðu starfi þar sem hann hefur nú þjónað um áratuga skeið, sé grunur okkar réttur. Og enn gerir hann fullt gagn, segja heimildarmenn, og gengur til daglegra starfa.

 

Það er oft besta varðveisla sögumerkra tækja og áhalda.