12. febrúar 2010

Bátavélar – til sjósóknar og jarðvinnslu

Heimsíðungur var að rannsaka bréfasafn Árna G. Eylands á dögunum. Stórmerkilegt bréfasafns og raunar einstakur banki heimilda um mesta breytingaskeið verkhátta á 20. öld.

 

Þar var m.a. að finna fjöllun um notkun bátavéla til þess að draga plóg og fleiri jarðvinnslutæki.

 

 

Þarna var sem sagt bréf til Árna sem þá þegar vann að bútæknimálum fyrir íslenska bændur, dags 12. des. 1924,  frá norskri tilraunastöð, Forus á Jaðri, sem tæknina hafði reynt. Og ástæðan var einföld: „idet jo de færreste av småbrukerne på kysten har hest hvorimot de fleste har en båtmotor.“ ... eða með íslenskum orðum: fæstir smábændanna við ströndina eiga hest en flestir vélbát. Árni hefur sennilega verið að leita eftir reynslu hinnar norsku tilraunastöðvar.

 

[Myndina af bátavélinni, sem fréttinni fylgir, tók heimsíðungur ófrjálsri hendi af heimasíðu Byggðasafns Vestfjarða].

 

Í haust leið bárust Landbúnaðarsafni tíðindi af því að Kristinn Guðlaugsson á Núpi (1868-1950), sá merki búnaðarfrömuður, hefði einmitt reynt bátavél í þessu skyni. Sennilega gerði hann það einmitt á þriðja áratugnum.

 

Leifar af vél (mótor) Kristins eru enn til en eftir er að bera kennsl á tegundina. Mjög sparar heimildir aðrar hafa geymst um tilraun Kristins. Það var Þráinn Haraldsson, sonarsonur Kristins, sem miðlaði þessum fróðleik með ljósmyndum af mótornum.

 

Fyrir nokkrum árum var hér á síðunni sagt frá tilraun sem annar vestfirskur bóndi gerði með notkun gangspils til plæginga, tilraun sem ekki skilaði jákvæðum árangri; sjá www.landbunadarsafn.is/frettir/nr/30207/

 

Nú má vera að fleiri hafi gert tilraunir með þessa verkhætti og væri þá afar fróðlegt að heyra um þá.

 

Öll eru þessi dæmi endurómur þess mikla áhuga fyrir verkumbótum sem efldist svo stórlega með íslenskum bændum á þriðja áratug tuttugustu aldar, m.a. fyrir áhrif jarðræktarlaganna frá 1923. Þær fengu hins vegar mikla útrás með komu jarðræktartraktoranna á árunum 1926-1931.