26. janúar 2010

Brúsapallar - horfnar menningarminjar?

Öðlingskvinna gaukaði að heimsíðungi þeirri frétt sem hér er vakin athygli á. Fréttin er komin frá þjóðminjaverði Noregs. Það er nú ekkert annað en það að í tilefni Menningarminjaársins 2009 voru sjö brúsapallar í Seljabyggð (Selbu) þar í landi friðaðir með opinberri viðhöfn þann 18. desember sl.

 

Norðmenn telja að brúsapallarnir geymi merkan hluta af menningarsögu sveitanna, hvað snertir bæði framleiðsluhætti og félagslíf.

 

Um þetta má nánar lesa á heimasíðunni http://burns.idium.no/riksantikvaren.no/?module=Articles;action=Article.publicShow;ID=113719

 

Uppátæki Norðmanna leiðir hugann einnig að íslenskri brúsapallamenningu: Hérlendis stóð blómaskeið brúsapallanna líklega á árunum 1940-1970 og þó um fleiri ár sum staðar.

 

Brúsapallar og hliðstæðir áningarstaðir stóðu við fjölmarga bæi. Flestir eru þeir nú horfnir; hlutverkinu víðast lokið. Þó leynast allnokkur dæmi enn sem upp í hugann koma við stutta íhugun:

 

- athyglisverður brúsapallur með skýli á bæ einum í innanverðri Blönduhlíð.

 

- steinsteypt smáhýsi við vegamót suður á Vatnsleysuströnd.

 

- málm- og viðargerður (sæðis-) brúsapallur við vegamót heim að hinni yfirgefnu Sæðingastöð BÍ á Pálstanga við Vatnshamravatn í Andakíl.

 

- steinsteypt vegarskýli skammt undan Ásum í Gnúpverjahreppi.

 

Sum staðar náði brúsapallaarkitektúrinn aðeins til þess að skellt var tómu línukefli á vegamót þjóðvegar og heimreiðar og það kallað brúsapallur. Stundum stóð stöng með bæjarnafnsskiltinu upp úr miðju kefli ...

 

Kíki nú hver sér nær: Hvar í sveitum er enn að finna þjóðlega brúsapalla? Hvetjum til hirðu þeirra sem hluta af heildarsvip fallegs býlis.

 

Ljósmyndir af dæmigerðum brúsapöllum með stuttri frásögn um tilurð og sögu ef kunn er þiggjum við meira en gjarnan.

 

Brúsapallasögur mega gjarnan fljóta með.  Hver man ekki sönginn þjóðfræga um Bjössa á mjólkurbílnum, sem ók eins og ljón með aðra hönd á stýri. Við brúsapallinn beið hans mær ?....