22. janúar 2010

Sæðingamaður fyrir daga GPS

Að þessu sinni bregðum við upp mynd af blaði - einu af sex slíkum sem sonur eyfirsks sæðingamanns afhenti safninu ásamt fleiri gögnum sumarið 2007. Blaðið sýnir uppdrátt sem sæðingamaðurinn gerði til þess að átta sig sem best á bæjaröðinni í umdæmi sínu - þannig að hann lenti nú örugglega á bænum þar sem kýrin beiddist.

 

Þótt eyfirsk búnaðarmenning væri snemma hin þroskaðasta munu bæjamerkingar við þjóðveg þar í sveitum ekki hafa verið orðnar alsiða þegar kortið var gert, sem var um 1960.

 

Á þeim tíma var líka unnið með ferskt sæði. Þá mátti ekki brúka mikinn tíma í það að leita að bænum sem pantað hafði sæðingu.

 

Á þeim tíma voru líka kýr á svo til hverjum bæ. Eyfirskir búnaðarfrömuðir sáu einnig til þess að þátttaka í skýrsluhaldi og sæðingum væri virk og almenn.

 

Sæðingamenn á sínum jeppum þurftu því að líta við á mörgum bæjum sem nokkurn tíma tók að læra hvar voru. Árleg æfing var einnig takmörkuð því víst voru sæddar kýr á hverjum bæ að meðaltali færri en tíu.

 

Í dag er ekki minnsti vandi að finna kúabúið. Bæði eru þau nú ekki jafnmörg og áður og svo finnst varla lengur ómerkt býli í landinu.

 

Jafnvel dugar að slá heimshnitum býlisins inn í bíltölvuna eða leiðsögutækið og aka síðan eins og tækið segir til um. Ætli sæðingamaður geti ekki síðan gengið með markalesara að kúnni sem beiðist nauts: Allt gengur lipurlega og með öruggum vélrænum hætti.

 

Eina óvissan er bundin sérvisku sæðisfrumunnar og eggsins; hvort hittast muni og sameinast að reglum lífsins eða þeim gert ókleift að finna hina réttu leið. Þar dugir ekki GPS - ennþá að minnsta kosti.

 

Hins vegar talar enginn lengur um að naut og kusa hafa verið firrt þeirri gleðinautn sem fylgir stundinni þegar heitustu lífshvatir þeirra beggja mætast í sama augabliki.

 

Meðal annars þess vegna er nú mjólkin orðin ódýrari en vatn út úr búð í sumum plássum....