16. desember 2009

Tímamót í innlendri búnaðarmenntun - fyrir 60 árum

Á árinu 1949 urðu merk tímamót í menntunarsögu íslensks landbúnaðar. Þá voru útskrifaðir fyrstu búfræðikandidatarnir frá framhaldsdeild Hvanneyrarskóla. Haustið 1947 hófst kennslan og var raunar sú fyrsta á háskólastigi sem fram fór utan höfuðborgarinnar.

 

Nemendur framhaldsdeildarinnar réðust sem ráðunautar búnaðarsambandanna víða um land og bættu úr þeirri brýnu þörf sem orðin var fyrir leiðbeiningar og miðlun þeirrar þekkingar sem flæddi yfir, bæði erlendis frá og úr innlendu rannsóknastarfi.

 

Kaflar þessarar sögu hafa verið sagðir hér og hvar en hún er enn ósögð í heild. Ráðunautar þessir urðu heimilisvinir á flestum bæjum landsins, unnu trúnað bænda og lögðu hart að sér við að koma búskapnum til nútíma hátta. Átti því vel við vísan sem til hafði orðið allnokkru fyrr:

 

Búfræðingar bæta láð

blómga og rækta staði.

Út um landið er þeim stráð

eins og hrossataði...

 

Já, vissulega greri og grær enn í sporum ráðunauta þar sem þeir hafa farið um og lagt bændum gott til.

 

Nú hefur Framhaldsdeildin vaxið til þess að vera Landbúnaðarháskóli Íslands svo segja má að vel hafi tekist til um vöxt og viðgang þessarar háskólamenntunar er hófst fyrir liðugum sex áratugum.

 

Meðfylgjandi mynd sýnir kennara og nemendur fyrstu deildariinnar, en hún nam árin 1947-1949. Taldir eru frá vinstri þeir Stefán, Jónsson kennari, Guðmundur Jónsson skólastjóri og Haukur Jörundarson kennari (Gunnar Bjarnason kennara vantar m.a. á myndina).

 

Þá koma nemendurnir Egill Bjarnason, Þorsteinn Valgeirsson, Sigurjón Steinsson, Bjarni Arason, Grímur Jónsson, Aðalbjörn Benediktsson, Skafti Benediktsson (framar) og Hjálmar Jónsson (aftar). Meðal okkar eru enn þeir  Egill, Bjarni og Skafti.