8. desember 2009

Jólabað fyrir 75 árum

Það var gjarnan um þetta leiti árs eða ögn fyrr sem bændur böðuðu fé sitt gegn óværu; vandi sem nú er leystur á annan hátt. Saga sauðfjárböðunar er merkileg og telur heimsíðungur líklegt að margir á hans aldri og eldri kunni þar frá ýmsu að segja sem vert væri skráningar.

 

Að þessu sinni verður getið Cooper´s Handbókar bænda fyrir árið 1934 sem safninu barst fyrir nokkrum árum. Ein síða Handbókarinnar fylgir hér með til fróðleiks. Veitið búnaði mannsins í auglýsingunni athygli.

 

Cooper framleiddi þekkt baðduft og margar fleiri vörur. Var Cooper enda Hirðsali Englands konungs eins og í Handbókinni segir.  

 

Á bls. 3 í henni segir ennfremur:

 

Coopers Baðduft nýtur hins bezta álits í öllum fjárræktarlöndum heimsins.

 

Um 88 ára skeið hefir Coopers baðduft læknað kláða, útrýmt færilús, fellilús og öðrum skordýrum og óþrifum, sem sækja á féð. Það er góð vörn gegn flugum. Það eykur og bætir ullarvöxtinn, verndar heilsufar fjárins og styður að vexti og viðhaldi þess.

 

Ekkert annað fjárbað hefir þessa sameiginlegu kosti.

 

Aðrar tegundir arsenik-dufts hafa á ýmsum tímum verið boðnar sauðfjáreigendum, en eptir nákvæma reynzlu hafa engar þeirra jafnast á við Coopers ....

 

Á þessum tímum var ekki verið að taka óværuna neinum vettlingatökum - allt að því arsenikk var brúkað eins og þarna má lesa.

 

En kláða og færilús var útrýmt.  Að hluta fólust í þeirri sögu pólitísk átök sem jafnast geta við Æs-seif-umræðu þessara daga.

 

En sigur vannst og því stiklar íslenska féð nú óværulaust um hús og haga og nýtur þeirrar ólgu sem meðal þess ríkir á brundtíð.