21. júlí 2005

Af liðlega 7-tugri þreskivél

Brátt bylgjast korn á ökrum bænda og þá styttist í byggskurð og –þreskingu.  Þótt ekki teljumst við vera kornyrkjuþjóð á Búvélasafnið nokkrar minjar um kornræktartilraunir fyrri ára. Að frátöldum jarðyrkjuverkfærum er hvað elsta tækið þreskivél, norskrar gerðar, frá Edv. Bjørnerud í Osló. Þreskivélin mun rekja sögu sína til kornræktar sem hafin var í Reykholti á 4. áratug aldarinnar, en stóð stutt. Kornræktartækin munu þá hafa fårið að Hvanneyri, þar sem Runólfur Sveinsson, ungur og áhugasamur skólastjóri vildi reyna kornrækt.

 

 

 

 

Bjørnerud-þreskivélin var knúin með flatreim frá mótor eða dráttarvél. Gerð og bygging þreskivélarinnar hefur undarlega lítið breyst í meira en heila öld, svo í raun er lítill munur á þreskibúnaði 7-tugrar þreskivélar og þeirra sem í dag teljast fínastar: það er aðeins búið að bæta sláttuvél framaná og útbúa tækið með eigin aflvél og ökuhjólum. Bjørnerud-þreskivélin er heil og í góðu standi.

 

Aðra þreskivél á safnið, 10-15 árum yngri, en mjög lík þeirri norsku að öllu leyti. Hún er dönsk að gerð (Dronningborg) og er komin frá Dagverðareyri við Eyjafjörð. Vélin er sem ný, svo vel höfðu þeir bændur Oddur, og Gunnar, faðir hans, farið með og geymt tækið.

 

Sérstæðasta þreskivél Búvélasafnsins er þó gaddþreskivél, komin frá Oddi Gunnarssyni á Dagverðareyri. Vélin er líklega frá því um eða laust fyrir 1930, en þá voru nokkrar slíkar fluttar til landsins. Gaddþreskivélin er handknúin og hún var handmötuð; afköstin voru því fremur smá, en í samræmi við stærð akranna. Því miður er þreskivélin, sem er að mestu úr tré, illa farin og þarfnast viðgerðar. Gaddþreskivélin myndar á sinn máta brú á milli þústarinnar, hins forna þreskiáhalds, og nútíma þreskivéla (combines).

 

Þótt við Íslendingar höfum í kornræktinni verið í svipaðri stöðu og ónefnd knattspyrnulið í neðstu sætum úrvalsdeildar, höfum við barist fyrir því að halda sæti okkar: Mótlætið og baráttuviljinn hafa blásið mönnum þrótt til athafna, og um það vitna hin fornu kornræktartæki sem í Búvélasafninu eru.