15. september 2017

Athyglisverð dengingarvél

Óskar heitir maður ágætur, Alfreðsson, býr að Geirólfsstöðum í Skriðdal við mikið safn fornvéla og annarra gamalla muna. Einnig mjög fjölkunnandi um slíka gripi - tekur raunar flestum fram í þeim efnum.

 

Nýlega gekk undirritaður um hús Óskars og naut leiðsagnar hans og fróðleiks - auk þess sem við skiptumst á sögum sem gamlir skólabræður frá Hvanneyri og Akureyri.

 

Við þetta tækifæri sýndi Óskar mér nýfenginn grip, afar sérstæðan. Um virðist vera að ræða dengingarvél (ljáklöppu).

 

Vélin virðist smíðuð af hugviti og hagleik en takmörkuðum efnum. Verður henni best lýst með ljósmyndum þeim er hér fylgja.

 

Hún virðist hafa verið knúin handafli með sveif en einnig er á henni reimskífa úr viði svo mátt hefur knýja hana með aðfengnu afli. Stillanleg er vélin á ýmsan máta.

 

Vélina fékk Óskar á Vesturlandi.

 

Á fyrri hluta síðustu aldar allt frá aldamótum var töluverður áhugi fyrir dengingarvélum, enda denging alsiða fyrir komu Eylands-ljáanna. Líklega væri réttara að tala hér um klöppun því þá var um kaldhömrun ljáanna að ræða. Sennilega er þessi vél frá þeim tímum.

 

Ef til vill kannast einhver við vél sem þessa og gæti frætt okkur Óskar um hana? Þakklátir yrðum við.