10. mars 2017

Fyrsta IHC-belta-ræktunarvélin

Á stríðsárunum síðari hófust miklar breytingar á túnrækt hérlendis, m.a. vegna tilkomu beltavéla með ýtitönn, eins og jarðýtur voru fyrst nefndar. Caterpillar-vélar höfðu komið á fjórða áratugnum, en nú komu IHC-vélar einnig til sögu, falboðnar af SÍS. Um það má lesa í bókinni Alltaf er Farmall fremstur.

 

Fyrsta IHC-beltavélin  kom í Grafninginn. Hann Ársæll Hannesson á Stóra-Hálsi þar í sveit hringi í skrifarann á dögunum og sagði undan og ofan af sögu þessarar vélar, sem hann gjörþekkir.

 

Söguna skráði skrifarinn, en hér skal aðeins drepið á fáein atriði hennar:

 

Fyrst um ljósmyndina sem fréttinni fylgir: Um hana skrifar  Ársæll:

 

"Sendi þér mynd af Grafnings traktornum sem var tekin um miðja nótt sumarið 1949 þegar bæjargilið er beint framundan. Sá er situr á vélinni er Björn Guðmundsson sem var á móti mér í nokkur tímabil. Þessi vél var keypt haustið 1942 og notuð fyrst vorið ´43. Eg kem fyrst í vinnu á henni haustið 1945 þá 16 ára og vinn mikið með henni til ´49 þegar eg tek við búinu á Stóra-Hálsi og öðru hvoru þar til hún var seld 1958."

 

Þeir voru fjórir félagarnir sem vélina keyptu. Næst kom hún í eigu búnaðarfélags sveitarinnar en að lokum varð hún eign Sigfúsar Öfjörð á Lækjamóti, þess merka forgöngumanns stórvinnuvéla.

 

Vélin var með díselaflvél er sett var í gang á bensíni magnetukveiktu. Vélin var á mjóum beltum nástæðum svo hún var völt; Sigfús mun hafa breytt henni síðar í þá gerð sem algengust varð á beltum. Hún var afar dugleg til dráttar ... sagði Ársæll.

 

Mest var unnið að nýbroti með öflugu diskaherfi, tvöföldu og skertum diskum, en þegar kom að fullvinnslu var hengdur aftan í vélina vænn trébiti og í hann hengd þrjú fjaðraherfi ætluð hestum. Reynt er að myndgera það hér; sá búnaður reyndist vel.

 

Vélin var tannarlaus, en kom sér samt afar vel í sveitinni, m.a. við samgöngur, því bæði reyndist hún vel í snjó sem þarna gerir oft töluverðan og í glímunni við vegleysur, því Grafningurinn þótti lítillar athygli njóta í vegabótum.

 

Það voru ungir menn sem í kaupin réðust, og sjálfur var Ársæll aðeins 16 ára er hann hóf að vinna á vélinni - á löngum vöktum. Þótti hann glúrinn vélamaður, hef ég heyrt; hefur það án efa bætt upp ungan aldur ... Hann býr nú í hárri elli þar eystra og lét eftir hætti vel af sér. Honum er þökkuð frásögnin.