19. nóvember 2016

Heimildir um torfgryfjur votheys

 Í september sl. óskuðum við eftir heimildum um votheysgryfjur úr torfi, gerð þeirra, notkun og fleira. Var það gert bæði hér á heimasíðu safnsins en einnig með grein í Bændablaðinu.

 

Viðbrögð urðu. Heimildarmenn hafa verið að gefa sig fram allt til síðustu daga, margir með ákaflega merkilegar frásagnir og jafnvel ljósmyndir, en þær hélt heimsíðungur að væri torfengið efni.

 

Ljóst er að jarðgryfjur votheys hafa verið afar algengar hérlendis. Heimildir sýna að t.d. á vestfjörðum hafa þær líklega skipt hundruðum. Heimsíðung grunar að íslenska jarðgryfjugerðin hafi verið sérstök, sé ekki finnanleg í nágrannalöndum, en þar voru þó svipaðar gryfjur hlaðnar úr grjóti, gjarnan steinlímdu, t.d. í Noregi...

 

Jarðgryfjur virðast hafa verið í notkun alveg fram undir 1960, og lengur sem neyðarlausn.

 

Flestar voru þær kringlóttar en dæmi eru komin um kantaðar aflangar gryfjur.

 

Þá eru líka dæmi um að formlegt og fast þak hafi verið á gryfjunum rétt eins og á þurrheyshlöðum, bæði bárujárnsþök en líka torfþök.

 

Myndin sem þessum pistli fylgir sýnir riss af jarðgryfju með torfþaki, sem heimildarmaður lýsti fyrir rissara (úr V.-Hún.):

 

Gryfjan var niðurgrafin en hlaðin nokkuð upp fyrir jarðvegsyfirborð. Síðan var raftur lagður yfir hana og reft út frá honum - allt síðan þakið með torfi eins og væri um venjulegt torfþak að ræða. Dyr voru síðan á gryfjuvegg.

 

Rissið er einfaldað og er aðeins ætlað til þess að vekja athygli á einni af mörgum formum sem bændur gáfu þessum þörfu heygeymslum.

 

Ef þú lumar á fróðleik um viðfangsefnið bið ég þig slá á þráðinn til mín eða koma fróðleiknum áfram með öðrum hætti!

 

Bestu þakkir til ykkar sem hafið brugðist við bón minni eða munuð gera það!