4. nóvember 2016

Lausa-mjaltavél komin í safnið

Mjaltavélar voru fyrst teknar í notkun hérlendis árið 1927, þá hjá Jóhannesi Reykdal að Setbergi við Hafnarfjörð. Síðan tóku þær að breiðast út, hægt þó í fyrstu. Gerð þeirra ver lengi hin sama: Sogkerfi leitt um fjósið frá miðlægt settum mótor en mjaltatækin borin á milli bása ...

 

Laust fyrir miðja öldina bárust hins vegar til Íslands mjaltavélar sem Árni G. Eylands nefndi lausavélar; þá var sogdæla knúin litlum bensínmótor og mjaltafötu með sogskipti komið fyrir á hjólavagni svo búnaðinum öllum mátti aka um fjósið á milli kúnna - og þess vegna mátti fara með allan búnaðinn út á stöðul eða kvíaból.  Óneitanlega hagræði !

 

Fyrirtækið Separator A/S með sín Alfa Laval-tæki varð vinsælast mjaltavélasala hérlendis, með umboði SÍS.

 

Fyrirtækið Orka í Reykjavík kynnti hins vegar fyrir Íslendingum lausavélar af gerðinni Perfection; Árni G. Eylands kveður slíkar vélar hafa komið í liðlega 100 íslensk fjós (Búvélar og ræktun, bls. 411-413).

 

Vinsældir lausavélanna urðu víst litlar á Norðurlöndum en mun meiri hérlendis að tiltölu. Vel hentaði að nota þær í eldri fjósum, en Árni skrifaði þó: "Má skoða notkun slíkra véla hér á landi sem hálfgerð bernskubrek og stundarfyrirbæri varðandi vélmjaltir". Reyndist hann sannspár.  Mjaltavélar af þessari gerðeru þó enn falar á hinum stóra markaði.

 

Landbúnaðarsafn hafði vegna búnaðarsögunnar um stund svipast um eftir lausa-mjaltavél, sem nú er fundin:

 

Það var höfðinginn Árni á Uppsölum Bjarnason sem af hirðu sinni hafði haldið leifum einnar slíkrar til haga, er hann afhenti safninu á dögunum. Sogdælan hafði að vísu farið á flakk og mjaltatækin fylgja ekki, en þau voru sígildrar gerðar. Myndin sýnir gripinn eins og hann nú lítur út. Mótorinn er í góðu standi, enda frá Briggs og Stratton.

 

Stutta stund mun lausavélin hafa verið brúkuð á Uppsölum. Hávaði mjaltavélamótorsins kvað Árni hafa kallað fram þau viðbrögð hjá Uppsala-kúnum að bunan stóð aftur úr þeim í vegg þveran þegar móverkið var knúið til verks ...

 

Safnið vill endilega heyra frá hverjum þeim sem kannast við eða á enn leifar af þessum sérkennilegu mjaltavélum, nú eða þekkti til notkunar þeirra ... Gamlir hlutir geymast ótrúlega vel á sínum réttu stöðum!