20. október 2016

Að skrifa bók

Þetta verður dálítið öðru vísi færsla en venjulega:

 

Heimsíðungur er farinn að gerast roskinn og hyggst draga úr daglegu stússi sínu við Landbúnaðarsafnið og fela það öðrum. Hins vegar verða rosknir menn að hafa eitthvað að gera svo þeir verði hvorki sjálfum sér né öðrum til leiðinda eða skapraunar.

 

Um nokkra hríð hefur hann verið að draga saman föng til þjóðfræði heyskapar á tuttugustu öld - m.a. inspíreraður af eftirbreytniverðum verkum Þórðar í Skógum  sem unnið hefur að öllum hinum öldunum...

 

Í dag urðu til drög nr. 2 að bókverki sem hefur vinnuheitið Frá reipum til rúllubagga.  Hvort það verður einhvern tímann eitthvað mega Guð og Lukkan ráða. Engu skal lofað.

 

Hins vegar hefur heimsíðungur afskaplega góða reynslu af því að leita til alþýðufólks víða um land með heimildir, texta, myndir, dauða hluti, minjar í landslagi, eða bara ábendingar um forvitnileg efni.

 

Þess vegna er þessi klausa skrifuð.

 

Heimsíðungur er sem sagt að reyna að tína saman sögur sem varpa ljósi á það hvernig heyskapur og heyverkun á Íslandi hafa breyst á 20. öldinni. Það er svo sem engin leið að ná utan um allt efnið enda er heyskapur búskapur eins og þar stendur.

 

Mér er fengur að öllu, en góðar/skýrar ljósmyndir af heyvinnu, heyskap og hverju því sem tengist heyöflun eða ábendingar þar um eru mér sérstaklega verðmætar... Þótt Ísland sé ekki stórt þá hefur samt verið töluverður vinnubragðamunur á milli sveita, þótt honum verði seint gerð tæmandi skil væri engu að síður gaman að geta vikið ögn að honum - og þá er góðra heimildarmanna þörf...

 

Símann hef ég 894 6368, og netfangið bjarnig@lbhi.is

 

Til gamans fylgja tvær myndir úr áðurnefndum bókardrögum, forsíða 2. draga og ein blaðsíða til viðbótar; en handritið á eftir að aukast og umskrifast amk 5 sinnum enn - minnst .... ef ég missi þá ekki móðinn áður !