5. september 2016

Beðasléttur enn ... Nú á Eiðum

Heimsíðungur átti leið um Eiðastað fyrir nokkru síðan. Þar stóð búnaðarskóli á sinni tíð, eins og mörgum mun kunnugt, stofnaður árið 1883 en lagður af eftir liðlega þriggja áratuga starf.

 

Augljóslega má enn sjá minjar um búfræði-iðkun þar á staðnum. Þegar ekið er heim á staðinn blasa við austan þjóðvegarins allmörg og regluleg beð, að meðaltali um 7,0 m breið og með svo sem 0,8 m breiðum rásum á milli.

 

Á nýlega slegnu túninu um daginn blöstu þau við, enn býsna glögg, þótt ár eftir ár sé búið að fara yfir þau með sláttuvél. Þau sjást mjög vel á Google Earth og þar má telja þau a.m.k. tuttugu.

 

 

Beðasléttan við heimreiðina á Eiðum hefur verið býsna stór, slagar hátt í einn hektara, svo í hana hafa farið mörg dagsverk. Er ekki líklegt, úr því sléttan er svo nærri staðarhúsunum (gömlu) að þar hafi skólapiltar fengið kennslu og þjálfun í nýjum búverkháttum?

 

Gaman er alla vega að sjá þessar glöggu ræktunarminjar á hinum forna búnaðarskólastað. Að vísu hafa þær að hluta skerst af yngri framkvæmdum því núverandi heimreið sker þær að hluta auk þess sem plantað hefur verið trjám í skjólbelti þvert á beðin. Það skýlir hins vegar vegfarendum og gestum staðarins prýðilega fyrir austlægum stórviðrum.

 

Lögð er með gömul mynd frá Eiðum, fengin af vef Minjasafns Austurlands, en á henni má sjá miklar beðasléttur í baksýn. Hvort þar er um sömu spildur að ræða geta staðkunnugir etv skorið úr um.

 

Að slétta tún í beðum er ræktunarháttur túnræktarbyltingarinnar sem fyrstu búfræðingarnir og búnaðarskólarnir ýttu áfram. Þegar sláttuvélar komu til sögunnar þótti sumum rásirnar á milli beðanna vera til mikillar bölvunar, kölluðu hana jafnvel „jarðræktarafskræmi“.

 

Því var sléttunaraðferðin lögð af, auk þess sem hún var mjög vinnufrek miðað við seinni tíma ræktunaraðferðir.  

 

Það hve víða má enn finna minjar um beðasléttur sýnir hversu útbreitt og algengt þetta verklag var. Rótin að ræktun í beðum, t.d. við kornrækt, rekur sig langt aftur í aldir, og þá um ýmis Evrópulönd. Eitt form hennar er enn iðkað í Færeyjum – þar kallað reinavelting.

 

Nýir tímar með nýjum þörfum ýttu beðaræktuninni til hliðar. Og þó, því segja má að kýfðar mýraspildur sem svo algengar eru nú til dags séu aðeins stílfærð gerð hinnar eldri ræktunar.

 

Tilgangurinn með beðum annars vegar og kýfðum spildum hins vegar er nefnilega sá sami: Að slétta landið og að greiða yfirborðsvatni leið frá rótum plantnanna og draga þannig úr hættu á vetrarkali.

 

Ljósmyndir: BG og Ásdís Helga Bjarnadóttir.