30. ágúst 2016

Jarðgryfjur votheys - hlaðnar torfgryfjur

Votheysgerð var fyrst kynnt Íslendingum  um 1875. Skömmu síðar var fyrsta votheyið verkað hérlendis svo vitað sé, raunar kallað súrhey á þeim árum. Frumkunnáttan barst líklega frá Noregi.

 

Það var Sveinn Sveinsson búfræðingur er síðar varð fyrsti skólastjóri Hvanneyrarskóla sem kynnst hafði verkuninni í búnaðarnámi sínu á Steini á Hörðalandi og lýsti henni í grein í tímaritinu Andvara.

 

 

Í Noregi var votheyið m.a. verkað í steinhlöðnum þróm (sílóum, kjöllurum ...), sennilega að erlendum fyrirmyndum. Hérlendis var ekki um auðugan garð að gresja hvað snerti byggingarefni.

 

Fyrstu íslensku gryfjurnar sem sögur fara af voru jarðgryfjur: Menn grófu þær  einfaldlega í hóla eða hauga. Í þéttum og föstum jarðvegi hafa þetta án efa getað orðið hinar ágætustu votheysgeymslur.

 

En svo mun það hafa tíðkast að hlaða gryfjuvegginn að innan með torfi (snidda, kvíahnaus ...?). Þannig gat fengist mjög þétt, slétt og áferðarfallegt yfirborð sem einnig stuðlaði að því að votheysstæðan seig hindranalítið og án þess að spilla gryfjuveggjunum.

 

Gamlar heimildir sýna að fyrstu jarðgryfjurnar voru kantaðar en mig grunar að hringformið hafi brátt orðið alsiða.

 

Með þessum pistli er ætlunin tvenn: Í fyrsta lagi að vekja athygli á þessum löngu horfna verkhætti bænda og í öðru lagi að leita eftir heimildum, frásögnum, sögum eða áþreifanlegum leifum af þessum mannvirkjum.

 

Ég man tvær jarðgryfjur vothey á æskubýli mínu, Kirkjubóli í Dýrafirði, hvar af önnur var nær árlega í notkun fram til ársins 1956, muni ég rétt, en í henni var verkað vothey handa kúnum til gjafar á útmánuðum.

 

Sú var hringlagahlaðin að innan með torfi, líklega fast að 3 m í þvermál og einar tvær mannhæðir á dýpt, með svo sem 0,6-0,8 m háum vegg ofanjarðar en á honum hvíldi lítið eitt hallandi þakið – járnslegið. Það var laust þannig að fjarlægt var að mestu við hirðingu/fyllingu.

 

Hin gryfjan hefur sennilega verið ögn minni en sömu megingerðar, aflögð fyrir mitt minni.

 

Mér var sagt að fyrir verkum við gerð og hleðslu gryfjanna hefði staðið Gunnar Guðmundsson þá ungur bóndi á næsta bæ, Hofi í Kirkjubólsdal. Mér skildist að hann hefði hlaðið fleiri jarðgryfjur þar í sveit og með sínum hætti lagt sig eftir þessum verkháttum, en Gunnar var framsækinn bóndi og hugmyndaríkur.

 

Jæja, þá er það erindi mitt við ykkur:

 

1. Man einhver þarna úti eftir votheysgeymslum – súrheysgryfjum – eins og hér er lýst, gerð þeirra eða notkun?

 

2. Veit einhver til þess að enn standi einhvers staðar leifar af jarðgryfjum votheys, leifar sem hann kann þá frá að segja?

 

3. Sé svo væri ég ákaflega þakklátur fyrir ábendingar, frásagnir eða aðra miðlun og/eða skráningu fróðleiks um þennan þátt íslenskrar búmenningar.

 

ES: Forsíðumyndin, sem fylgir þessum pistli, er gerð eftir lýsingu Björns Bjarnarsonar, búfræðings, af „súrheyskjallara“ sem hann kvaðst hafa gert „... í gömlum, grónum öskuhaugi“ á Mið-Fossum í Andakíl síðsumars árið 1881.