11. ágúst 2016

Heybindivélin 50 ára á Íslandi - eða þannig

Haus fréttarinnar er ekki sagnfræðilega réttur, svo því sé haldið til haga, og textinn sem hér fer á eftir er á ögn persónulegum nótum, og auk þess skrifaður eftir minni, að mestu. Ég styðst hins vegar við dagbók mína líka.

 

Sumarið 1966 sendu Dráttarvélar hf heybindivél til opinberrar  prófunar hjá Verkfæranefnd á Hvanneyri. Þetta var fyrsta heybindivélin sem prófuð var þannig. Þá var áhugi bænda á heybindingu að vakna, m.a. í kjölfar heyflutninga um langvegu og heyskapar á söndunum syðra.

 

Bindivélin var af gerðinni Massey Ferguson, háþrýstigerð, með 35x45 cm bagga en lengd stillanlegri. Vélin kom ósamsett að mestu og kom það í hlut okkar Brynjars Haraldssonar að púsla henni saman. Sá var þó gallinn að enginn leiðarvísir var með vélinni þá svo við máttum prófa okkur áfram. Tók verkið því sinn tíma.

 

Fimmtudaginn 11. ágúst 1966 stóð bindivélin tilbúin að því er við Brynjar töldum. Ólafur Guðmundsson frkvstj. hafði þá falast eftir aðstöðu til frumprófunar hjá Jóni bónda á Hvítárbakka, því bæði þekkti Jón nokkuð til heybindivéla þá þegar og var áhugasamur um tækni- og búnaðarframfarir.

 

Léttir í lundu ókum við Ólafur upp að Hvítárbakka með bindivélina, enda var veður hið besta, sól og þurrkur. Þar á bæ var mikið hey undir og allar vélar keyrðar til efstu tannar. Í miðju iðunnar stóð Jón bóndi í gráum slopp sínum með derhúfu, og stýrði sínu liði glaðbeittur að vanda, bauð okkur Ólafi þegar í kaffi. Það þáum við hjá Björgu langfrænku minni af Haukadalsætt ...

 

Nú, nú, brátt var haldið út í flekk og heila móverkið gangsett. Virtist allt virka, og Jón taldi því rétt að beita bindivélinni á fyrsta garðinn. Segir nú í dagbók skrifarans:

 

"Þá hún skyldi binda fór allt í haug. Vantaði þá smájárn í vélina og þegar það kom í batt vélin alveg eins og hestur, skaut böggunum alveg aftur úr sér" ...

 

Og þarna dritaði vélin úr sér hverjum bagganum á fætur öðrum og brosið á okkur þremenningunum náði hringinn. Þótt einn kúskur Jóns bónda kæmi á flugaferð á MF 35 utan af túni með hjólmúgavél sína í henglum spillti það ekki gleði Jóns; hann benti pilti aðeins á að fara með henglana heim á verkstæði og fá þetta hengt saman í hjólmúgavél að nýju. Hvarf kúskur svo í rykmekki og kemur ei meir við þessa sögu...

 

Við Ólafur tókum hins vegar til við að mæla og vega. Ég hafði aldrei séð heybagga fyrr og þótti þetta firn mikil og undur. Það fyrsta sem sló mig hve helv. baggarnir voru þungir; heyið var að sönnu þvalt og pressan á bindivélinn ekki spöruð að ráði Jóns bónda ...

 

Man ég enn hve þeir sigu í við vigtun....

 

Margir baggar voru bundnir á Hvítárbakka. Þeim var skotið inn í litla hlöðu þar sem gaf Ólafi færi á að fylgjast með súgþurrkun þeirra. Um árangur vissi ég lítið því ég hélt til náms í Noregi fjórum dögum seinna...

 

Nokkar bindivélar áttu eftir að koma í prófun næstu árin, tæknin átti líka eftir að breiðast út um allt land. Baggaöldin var að hefjast. Heybaggarnir áttu eftir að gleðja marga en hryggja aðra... Ég læt þá sögu liggja um sinn ...

 

... Og enn þekkjast þeir, að því er virðist sem félagsleg skemmtiaðgerð hjá sumum ... og farið ar að tala um afabagga.

 

Nafnið segir sitt um stöðu þeirra í dag....

 

En efst í minni mínu nú réttum 50 árum síðar er höfðingsskapur þeirra Hvítárbakkahjóna. Síðan hefur alltaf verið dálítill ljómi yfir Hvítárbakka - þótt heybaggaódámarnir sigju í svo til vandræða og jafnvel líkamsskaða horfði ....