13. júlí 2016

Listaverk Ólafar Erlu

Á laugardaginn kom listamaðurinn Ólöf Erla Bjarnadóttir (keramiker) með verk sitt Hólsfjöll og setti það upp til sýningar í Landbúnaðarsafni.

 

Verkið er mjög dæmigert fyrir íslenska bóndann í aldanna rás, að segja má. Í því felst stór hluti landbúnaðarsögunnar hér á norðurslóðum og það var ástæðan fyrir því að safnið óskaði eftir því að fá verkið til sýningar.

 

Ólöf Erla útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskólanum árið 1983. Hún hefur starfað við fagið síðan, sýnt víða, m.a. hér í Landbúnaðarsafninu, kennt og rekið verslunina Kirsuberjatréð í Reykjavík. Hún segir um verkið:

 

Þegar ég kom á Hólsfjöll í fyrsta skipti, um páska 1975 var upplifunin óvenjuleg og sterk. Bændur á Fjöllum beittu fé sínu helst daglega allan veturinn og tengdafaðir minn, Benedikt Sigurðsson, bóndi á Grímsstöðum, var þar engin undantekning. Hann rak féð ýmist til beitar eða ef jarðbann var algert, snjóvgaði því þ.e. lét það éta snjó til brynningar. Mér fannst fallegt og myndrænt að horfa á féð í snjónum, forystuféð á undan en maður og hundur á eftir. Þannig varð þetta verk til. Þetta er skólaverk úr Myndlista- og handíðaskólanum. Kennari minn í þessu verkefni var Elísabet Haraldsdóttir. Verkið er unnið úr steinleir.