14. júní 2016

Safnið í sólmánuði

 Þér þykir líklega að hljótt hafi verið um safnið hér á síðunni undanfarið eftir vel heppnaðan Safnadag, sbr. síðustu fréttafærslu (!).

 

Það passar. Bæði brá heimsíðungur sér í sauðburð vestrá Firði en um hitt munaði meira að hann fékk nýja tölvu með öllum nýjustu trixum, en missti þá um leið takið á nokkrum eldri sem honum hafði tekist að læra á þeim liðlega 15 árum sem heimasíðu safnsins hefur verið haldið úti.

 

Nú er þetta allt hins vegar að koma...

 

Safnið er nú opið daglega kl. 11-17. Þar er jafnan í móttöku Halldóra Ingimundardóttir sem er starfsmaður Ullarsels að 3/4 en safns að 1/4 því afgreiðsla er sameiginleg eins og upp var tekin sl. sumar með góðum árangri.

 

Þá er Skemmukaffi á sínum stað í Skemmunni, elsta húsi staðarins. Og á föstudögum kl. 13-17 er Bókaloftið opið, en það er á 2. hæð Halldórsfjóss, þar er gott úrval gamalla bóka á góðu verði - fínt að leita sér þar sumarlesningar.

 

Laugardaginn 9. júlí verður svo Hvanneyrardagur. Við segjum nánar frá honum er nær dregur...