29. mars 2016

Breytingar á starfsliði Landbúnaðarsafns

Um þessar mundir verður breyting í starfsmannaflokki Landbúnaðarsafnsins:

 

Jóhannes Ellertsson, sem verið hefur í hlutastarfi við safnið um árabil, lætur nú af föstu starfi vegna aldurs.  Jóhannes hefur unnið safninu um þrettán ára skeið. Hefur safnið notið hagleiks hans, vandvirkni og verkþekkingar.

 

Jóhannes mun þó áfram leggja safninu lið og grípa í verk, einkum varðandi lagfæringar og forvörslu mikilvægra gripa safnsins. Landbúnaðarsafn þakkar Jóhannesi trausta liðveislu um árabil.

 

Í starfshluta við safnið kemur Ragnhildur Helga Jónsdóttir land- og umhverfisfræðingur, kennari við Landbúnaðarháskólann og bóndi í Ausu. Ragnhildur Helga er gjörkunnug safninu, hefur um árabil komið þar að kynningu og móttöku gesta, en það verður aðalviðfangsefni hennar nú fyrst í stað.

 

Ragnhildur Helga hefur einnig unnið rannsóknaverkefni á vegum safnsins, bæði um engjanýtingu í Borgarfirði og ræktunarminjar í Ólafsdal.

 

Safnið býður Ragnhildi Helgu velkomna til starfa sem koma munu Landbúnaðarsafninu vel.

 

 

 

Hlutur Bjarna Guðmundssonar sem verið hefur verkefnisstjóri safnsins mun minnka, en hann mun þó áfram sinna nokkrum störfum varðandi daglegan rekstur safnsins.

 

(Myndin af þremenningunum sem fylgir þessari frétt var tekin við vinnslu rannsóknaverkefnis um  nýtingu flæðiengja í Borgarfirði. Með okkur Ragnhildi Helgu er þar félagi okkar, Þorkell Fjeldsted í Ferjukoti, samstarfsmaður að verkefninu og öflugur stuðningsmaður safnsins. Hann lést haustið 2014.)