17. mars 2016

Laugardagsrabb að Laugum þann 19.

Jæja, á laugardaginn kemur, 19. mars kl. 13 ætlar heimsíðungur, Bjarni Guðmundsson, að hefja smá rabb um Torfa og ljáina í Byggðasafninu að Laugum í Sælingsdal.  

 

Valdís safnsstjóri hefur lofað góðu kaffi á afar sanngjörnu verði.

 

Þér finnst kannski ekki tímabært að ræða um ljái nú á einmánuði, en í ljósi þeirrar blíðu sem undanfarið hefur ríkt og er spáð, auk lítils þela í jörðu, má gera ráð fyrir slætti fljótlega upp úr fardögum.

 

Þannig er ekki ráð nema í tíma sé tekið.

 

Viðeigandi er að fjalla um ljáina og Torfa í heimahérði hans. Með ensku ljáblöðunum sem Torfi kynnti Íslendingum má segja að orðið hafi bylting í heyskaparháttum Íslendinga.

 

Slátturinn varð auðveldari, afköstin uxu og minna verk var að hirða ljáina en áður hafði gerst. Þetta var eitt af mörgu sem Torfi Bjarnason, jafnan kenndur við Ólafsdal, kynnti Íslendingum og stuðlaði að umbótum og framför.

 

Þessi saga er m.a. sögð í bókinni Íslenskir sláttuhættir, sem út kom á liðnu hausti.

 

Bjarni verður með nokkur eintök af bókinni til sölu á góðu verði, auk þess sem hann er til í að árita þær, sem og bækur er Dalamenn hafa þegar eignast en kunna að vilja fá áritun á þær ...

 

En stundin í Byggðasafninu að Laugum á að vera óformleg spjallstund í viðeigandi umhverfi.

 

Allir velkomnir.