4. mars 2016

Sending frá velgjörðarmanni

 Á dögunum barst heimsíðungi undarlegur hlutur í pósti, vel frá genginn og vandlega merktur.

 

Við opnun kom í ljós að um var að ræða sendingu frá austfirskum heiðursmanni sem oft hefur langt okkur lið. Nú sendi hann ónotað léni, en það er ljáblað frá dögum ensku ljáana á Íslandi, þeirra er Torfi í Ólafsdal kynnti Íslendingum.

 

Frá þeirri sögu og fleiru er sagt í bókinni Íslenskir sláttuhættir sem þráfaldlega hefur verið nefnd hér á síðunni.

 

Heimildarmaður okkar kvaðst lengi hafa slegið með orfi og ljá og skrifaði  "Þessi fimmtíu ár sem ég sló með orfi og ljá voru ljáblöðin af sömu gerð. Ég ætla að senda þér eitt". Og það gerði hann.

 

Ljáblaðið er ellefu gata, óslitið með öllu. Á neðri hlið þess að "fílsmerkið" sem margir nefndu svo, sem merkir að blaðið kom frá fyrirtækinu W. Tyzack Sons & Turner í Sheffield eins og lesa má af ljáblaðinu.

 

Tyzack-fyrirtækið var einmitt það sem líklega sá Íslendingum lengst og mest fyrir ljáblöðum - eins og vikið er að í áðurnefndri bók.

 

Við þökkum hinum austfirska heimildarmanni kærlega fyrir sendinguna, sem nú btist í ljáasafn Landbúnaðarsafns.