18. janúar 2016

Engjahefill frá Alþingishátíðarári

Í dag segir af engjahefli.

 

Hann er einn af elstu gripum safnsins; kom í safnið á fyrsta ári þess - árið 1940 og er skráður í fyrstu aðfangabók þess. Við teljum að það sé sá sem meðfylgjandi myndir eru af. Raunar vitum við ekkert um uppruna hans eða tegund. Nema það að hann er nær örugglega útlendur.

Á fyrri hluta síðustu aldar var engjarækt mikið stunduð hérlendis. Halldór Vilhjálmsson skólastjóri á Hvanneyri keypti engjahefil um 1930.

 

Með honum skyldi reyna að skafa smáþýfi og nabba af engjalöndum þar svo beita mætti sláttuvél á landið.

 

Þetta var eins konar þúfnaskeri. Myndirnar sýna verkfærið sem við teljum nær víst að sé það sem Halldór keypti fyrir 85 árum eða svo.

 

Krotmyndin á að sýna hvernig unnið mun hafa verið með verkfærinu. Þúfurnar áttu að sneiðast af sem vörtur af hörundi undan hníf.

 

Afskornar lögðust þúfurnar í eins konar "múga" en efnið úr honum skyldi notað til þess að byggja flóðgarða á engjunum, rétt eins og gerðist með þúfnaskerann.

 

Engjahefillinn var dreginn af hestum. Reyndist víst þungur. Ekill þyngdi hann enda nauðsynlegt ætti hefillinn að geta heflað - rist þúfurnar af ...

 

Er til kom varð reynslan af engjaheflinum ekki góð og hann mun lítið hafa verið notaður. Kannski þess vegna er hann til enn?  En hugmyndin var ekki galin.

 

Heimsíðungur hefur velt því fyrir sér hvort tækið að stofni til hafi verið eins konar veghefill, ef til vill smíðaður til þeirra nota ...? Vegheflar þeirrar tíðar munu nefnilega ekki hafa verið ósvipaðir...

 

En nú er of seint að spyrja. Hugmyndir eru því vel þegnar ef einhver þekkir eitthvað svipað.

 

Það sem hér stendur fyrir ofan er að hluta byggt á ótraustum grunni - frekari rannsókna er þörf, en á einhverjum stað verður að byrja.