30. desember 2015

Nýárskveðja

Velunnari safnsins sendi þessa mynd, sem heimsíðungur lætur nú fylgja áramótakveðju safnsins, og síðustu færslu ársins 2015.

 

Myndin mun vera úr Fréttablaðinu. Beðist er velvirðingar á hnuplinu, en höfundarmerkið á að fylgja myndinni svo allra réttinda sé gætt.

 

Tíminn líður. Sumu miðar fram. Öðru aftur. Engin ástæða er til annars en að tölta vonglaður til móts við hið nýja ár, en þakka jafnframt fyrir það gamla.

 

En hvað myndinni viðvíkur þá er boðskapur hennar endurómur mikillar umræðu sem farið hefur fram undanfarna daga og byggist á þeim sérstæða skilningi að allt nýtt sé betra en það sem er gamalt.

 

Þúfnabaninn sæli, sem þarna er dreginn til sögu, stóðst að vísu ekki allar væntingar, en hann braut í blað ...

 

 ... boðaði nýja tíð, ruddi nýjum lausnum farveg. Þakkarvert væri ef fleiri af tillögum nútímans, en þó frekar gerðum, gerðu það ...

 

---

 

Lesi einhver sérstakar skoðanir út úr þessari klausu skal það tekið rækilega fram að þær eru skoðanir undirritaðs, heimsíðungs sem hér hefur pikkað á skjá tíðindi vel á annan áratug,  og eru ótengdar Landbúnaðarsafni Íslands.

 

Bjarni Guðmundsson