15. desember 2015

Samstarf við Sögusetur íslenska hestsins

Í gær var undirrituð viljayfirlýsing Landbúnaðarsafns Íslands á Hvanneyri og Söguseturs íslenska hestsins að Hólum í Hjaltadal. Til verksins var valinn hlutlaus staður (!), þ.e. fundastofa í húskynnum Bændasamtaka Íslands í Bændahöllu við Hagatorg Reykjavíkur...

 

Yfirlýsinguna staðfestu þeir Bjarni Guðmundsson og Kristinn Hugason forstöðumenn stofnananna, en áður höfðu stjórnir þeirra fallist á efnisatriði hennar.

 

Jafnfram því skiptust stofnanirnar á gjöfum, svo sem á meðfylgjandi mynd má í forgrunni sjá - yfirlýsingunni til áréttingar.

 

Í yfirlýsingunni er einkum vikið að þremur efnisþáttum um vilja til verka, eða eins og þar segir 

 

·         Beina hvers konar verkefnum sem upp kunna að koma til þess aðilans sem betur hentar, m.t.t. samþykkta og skipulagsskráa sem unnið er eftir og forðast jafnframt tvíverknað og hvers konar skörun í þeim verkefnum sem þeir takast á hendur.

 

·         Hafa virkt samstarf um söfnun og vörslu hvers konar gagna og muna og koma því fyrir hjá þeim aðilanum er betur hentar, m.t.t. verkefna og möguleika á hentugri og fullnægjandi vörslu.

 

·         Hafa hvetjandi samstarf um hvers konar útgáfustarfsemi með gagnkvæmri miðlun upplýsinga, yfirlestri og kynningu á útgefnu efni. Um stærri og kostnaðarsamari verkefni af þessum meiði skal samið sérstaklega.

 

Landbúnaðarsafnið og Sögusetrið vilja með staðfestingu þessarar samþykktar bæta vinnubrögð við hvers konar þekkingaröflun á landbúnaðarsögu Íslands og sögu vegferðar íslenska hestsins með þjóðinni og þannig tryggja stöðu beggja þessara þátta til framtíðar.

 

Meðfylgjandi mynd sýnir forstöðumenn staðfesta yfirlýsinguna, Kristinn Hugason til hægri og BG til vinstri.  Kristinn er nýráðinn forstöðumaður Sögusetursins.