11. nóvember 2015

Norskt-íslenskt sláttusamstarfsverkefni skilar árangri

Sláttubók míns góða vinar og Hallingdælings, Hans Petter Evensen, Slå med ljå barst mér í dag. Listilega falleg bók, vönduð og efnislega áhugaverð.

Yfir kjötbollum, öli og kaffi sátum við nær daglangt í Dröbak við Óslóarfjörð, 27. maí 2001, þegar við ákváðum að bera saman og skrifa um slátt og forna heyskaparhætti norska og íslenska.

 

 

 

Síðan ágerðust fundir okkar. Vinnufund héldum við í febr. 2009, hér á Hvanneyri, bárum saman ýmsar heimildir, heimsóttum söfn ofl. (Til þess að forðast misskilning þá höfum við kostað ævintýrið sjálfir en ekki leitað í norræna sjóði .... enn ....).

 

Aftur héldum við semínar í september 2011, þá að Torpo í Hallingdal. Þá heimsóttum við heimildarmenn, ofl. og gerðum sérstaka ferð í Brusletto-smiðjuna á Geilo, en þar voru Eylands-ljáirnir slegnir. 

 

Fórum líka reisu saman upp á sellönd Hallingdælinga til þess að skoða slægjur og aðrar aðstæður þar.

 

Við mönuðum hvorn annan upp, eða hugguðum þegar á móti blés, skiptumst á hugmyndum og textum, efni, myndum og áhöldum ...

 

Við unnum út frá þeirri hugmynd að mjög hefði svipað saman sláttuháttum Norðmanna og Íslendinga upp úr landnámi. Okkur lék m.a. forvitni á að vita hvernig hin sameiginlega rót hefði síðan rakist áfram í aldanna rás.

 

Hans Petter hefur unnið að máli þessu í meira en 20 á og m.a. haldið árlega námskeið í fornvinnubrögðum sláttar  sem mikla athygli hafa vakið. Hann hefur raunar sérhæft sig í náttúru-kennslufræði (grönn pedagogikk) og aðferðum til þess að viðhalda fornum hefðum með lifandi hætti.

 

Og nú liggur árangurinn fyrir: Tvær bækur um sama efni samtals upp á 675 bls. Þó afskaplega ólíkar að allri gerð. Bók mín er líklega meiri sagnfræðibók og þróunarsaga, en bók Hans Petters um hefðina sem svo makalaust vel hefur lifað meðal Norðmanna, sem m.a.  höfðu miklu betri aðgang að járni til ljáasmíði og urðu sérhæfðir ljáasmiðir...

 

Þetta er búið að vera firna skemmtilegt samstarf og gefandi, maður lifandi ...

 

Og þá er bara að undirbúa tveggja manna bókateiti, að hluta e-s staðar í sellöndum Hallingdælinga Noregs og að hluta í heimahéraði Snorra Sturlusonar...