19. október 2015

Fornvélasæti steypt fyrir safnið

 Í Landbúnaðarsafni hafa vakið athygli sæti fyrir gesti hér og hvar um safnið þar sem þeir geta tyllt sér, hvílt lúin bein en notið þess, sem er að sjá, um leið.

 

Þetta eru gömul vinnuvélasæti, að vísu ekki mjög þægileg til þrásetu enda af járni gjörð. Þó þóttu þau góð fyrr á tíð.

 

Sætin minna á gamla tíð svo gestir geta fundið til sögunnar á eigin rassi...

 

Framan af var borið svo mikið í sætin að þau voru steypt, gjarnan með merki viðkomandi smiðju, og ýmsu flúri.

 

Sum voru eiginlega smá-listaverk, ekki minna augna- en rass-yndi.

 

Nokkur slík hefur Landbúnaðarsafn eignast, m.a. eitt frá Katrineholm, sænskri smiðju, sem seldi til dæmis nokkur jarðvinnsluverkfæri til Íslands á fyrstu árum síðustu aldar.

 

Safnið átti skrautsæti frá Katrineholm, því verr brotið. Hins vegar á safnið góðkunningja austrá Héraði, sem lánaði okkur sæti, því við vissum af snillingi sem gæti steypt eftir sætinu. Og gerði það.

 

Það er hann Kristján Gunnarsson á Þingeyri, sem þar starfrækir m.a. steypiríið í Vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar, hvað elstu og fínustu járnsmiðju á Íslandi.  Og Kristján steypti fyrir okkur tvö sæti, skoðið bara myndirnar.

 

Svo málaði Jóhannes Ellertsson sætin. Eftir standa tvö heiðurssæti sem bíða gesta safnsins. Flott, finnst ykkur ekki?

 

Kristján Gunnarsson er snilingsmálmsteypumaður