22. september 2015

Gátan ráðin - verkfærið afhjúpað

Við spurðum á dögunum um handverkfæri sem safninu áskotnaðist. Ýmsar tillögur bárust, það voru allt rökstuddar ágiskanir, sumar  frumlegar.

 

En svo hringdi Palli í Grenigerði, Páll Jensson bóndi í Grenigerði ofan Borgarness. Páll er fæddur í Danmörku. Hann þekkti verkfærið, hafði unnið með því sjálfur þar ytra á árunum laust fyrir 1960.

 

Og saga hans var þessi:

 

Páll og félagar hans notuðu verkfærið til þess að rista fyrir torftöku til skurðagerðar við framræslu á mjög blautu landi. Ristar voru tvær samhliða rispur, eins og hann sýnir á myndinni, síðan var skorið um þvert og torfurnar fjarlægðar svo eftir varð skurður sem ræsti fram landið.

 

Þá var skerinn einnig notaður við móskurð, sagði Páll: Þegar búið var að rista og hreinsa svörðinn ofan af mónum, var fyrir honum skorið með þessum handhæga skurðarhníf.

 

Bugðótt eggin hélt bitinu betur en bein, og það létti torf- og móskurðinn mjög.

 

Að þessum störfum vann Páll í Gammel Råsted, sveit skammt suðvestur af Holstebro á Jótlandi en þar um slóðir er mjög votlent.

 

Einhvern veginn hefur þessu handhæga verkfæri skolað til Íslands en ekki virðist það hafa orðið almennt - menn hafa fremur kosið að nota áfram torfljáinn og síðan stunguskófluna til fyrirristu...

 

Við þökkum Páli fyrir liðveisluna, sem ekki er í fyrsta sinn veitt - og að sjálfsögðu fyrir vöfflukaffið hjá þeim góðu hjónum, Ritu pg Páli í Grenigerði.