22. júní 2015

Fornsláttunámskeið á Hvanneyri 11. júlí

Laugardaginn í tólftu viku sumars  – 11. júlí nk. – mun Landbúnaðarsafnið gangast fyrir fornsláttunámskeiði á Hvanneyri.

 

Um er að ræða örnámskeið til að kynna þátttakendum fornslátt, sláttuamboð og hvernig menn búa þau sér í hendur – og síðan að leiðbeina um frumatriði sláttar með orfi og ljá.

 

Áhersla verður lögð á skemmtandi fræðslu, holla  útivist og notalega afþreyingu í fallegu umhverfi.

 

Fornsláttar-örnámskeiðið um standa kl. 10-12.30. Leiðbeinandi verður Bjarni Guðmundsson en líka er gert  ráð fyrir því að um jafningjafræðslu verði að ræða – að vanari sláttumenn leiðbeini hinum óvanari.

 

Æskilegt er að þátttakendur hafi með sér amboð: orf og ljá. Námskeiðið hentar jafnt körlum og konum sem náð hafa 145 cm hæð. 

 

Stundaskrá námskeiðsins  er þrískipt:

 

A: Fjallað um sláttuamboð, slægju og sláttuhætti;

B: Búið í hendur sér, brýnt og borið út, og loks

C: Sláttuæfingar. 

 

A-liður fer fram í Landbúnaðarsafninu, en B- og C-liðir í hlaðvarpanum á Hvanneyri og/eða á Hvanneyrarfit, allt eftir sprettu og ástandi slægna. 

 

Námskeiðinu lýkur með rabarbaragraut og rjóma kl. 12.30 (en þá taka við ýmis dagskráratriði Hvanneyrardags, sjá þar).

 

Þar sem hér er um tilraunanámskeið að ræða verður fjöldi þátttakenda í því miðaður við 10 manns að hámarki. Verði eftirpurn meiri og takist námskeiðið bærilega munum við endurtaka það fljótlega. 

 

Námskeiðsgjaldið er kr. 5.000,- og í því felst kennsla, kaffisopi og rabarbaragrautur.

 

Nánari upplýsingar um námskeiðið verða veittar í síma Landbúnaðarsafnsins 844 7740. Þar þurfa væntanlegir þátttakendur að skrá sig, eða á tölvupóstinum bjarnig@lbhi.is   

 

Á heimasíðu safnsins verða einnig og eftir þörfum birt nánari tíðindi af námskeiðinu.

 

Námskeiðið er framlag safnsins til Menningarminjadaga sumarið 2015, sjá www.minjastofnun.is (European Heritage Days 2015  Industrial and Technical Heritage).

 

Ljósmyndina, sem fylgir hér með, tók Vigfús Sigurgeirsson nokkru fyrir miðja síðustu öld. Hún sýnir fimm vaska sláttumenn búa sig undir þrælaslátt á Hvanneyrarengjum.