7. júní 2015

Gamlir Hvanneyringar heiðra safnið

í gær, laugardaginn 6. júní, var mikið um að vera í Landbúnaðarsafni.

 

Í fyrsta lagi heimsóttu og skoðuðu safnið 50 ára nemendur sem voru að fagna brautskráningarafmæli sínu.

 

Þeir færðu safninu myndarlega fjárupphæð til "þarfra verka í safninu" eins og þeir orðuðu það.

 

Ekki hefur verið ákveðið til hvers fjármununum verður varið en við munum greina frá því þegar þar að kemur.

 

Í öðru lagi komu Hvanneyringar brautskráðir vorið 1963 með gjöf sem þeir hétu skólanum á 50 ára afmæli sínu.

 

Gjöfin er lágmynd af Guðmundi Jónssyni skólastjóra er komið skyldi fyrir í Landbúnaðarsafni en Guðmundur var mikill áhugamaður um verktækni og sá sem vann að safninu á fyrstu stigum þess, er það var stofnað árið 1940, - og varð eins konar verndari þess, að segja má.

 

Í gær komu þeir félagarnir saman og afhjúpuðu myndina. Það gerði elsti félaginn í þeirra hópi, Gunnar Jónasson á Rifkelsstöðum. Fyrir hópnum hafði orð Jón Hólm Stefánsson á Gljúfri í Ölfusi.

 

Lágmyndina gerði listamaðurinn Pétur Bjarnason.

 

Bjarni Guðmundsson hélt stutt erindi um Guðmund og Jóhannes Torfason á Torfalæk mintist Guðmundar og kynna sinna af honum.

 

Ásgeir sonur Guðmundar þakkaði fyrir hönd fjölskyldunnar. Þá flutti Gunnar Þórisson á Fellsenda ljóðakveðju, en athöfinni stjórnaði Björn Þorsteinsson formaður stjórnar Landbúnaðarsafnsins.

 

Síðan var gestum boðið til kaffis í Skemmunni - kaffihúsi, elsta staðarhúsinu.

 

Dagurinn varð hinn ánægjulegasti og Landbúnaðarsafn þakkar þessum góðu gestum komuna og verðmætar gjafir þeirra.