1. maí 2015

Ársfundur safnsins

Ársfundur Landbúnaðarsafns var haldinn sl. miðvikudag, 29. apríl. Fundinn sátu aðal- og varamenn stjórnar auk gesta.

 

Fundurinn var tvískiptur: Annars vegar voru það venjuleg aðalfundarstörf skv. skipulagsskrá sjálfseignarstofnunarinnar en hins vegar ör-málþing um framtíðarstarf og -stefnu safnsins.

 

Farið var yfir starfsemi safnsins á liðnu ári, en skýrsla um hana er að finna hér á heimasíðunni.

 

 

Undirritaður lagði fram og skýrði ársreikning sjálfseignarstofnunarinnar fyrir árið 2014.

 

Ársreikningurinn var unninn og endurskoðaður af KPMG/Haraldi Reynissyni. Kristín Siemsen hafði að venju færði bókhald safnsins en Ásdís B. Geirdal er gjaldkeri þess. 

 

Rekstrartekjur safnsins á árinu 2014 voru kr. 20.599.038,- og –gjöldin kr. 22.125.751,-. Rekstrartap að teknu tilliti til afskrifta nam kr. 892.998,- Eigið fé í árslok nam kr. 7.891.347,-

 

Skýrðir voru sérstaklega og ræddir nokkrir liðir ársreikningsins. Að umræðum loknum samþykkti stjórnin ársreikninginn samhljóða og áritaði hann.

 

Miklar umræður urðu á ör-málþinginu um starf og stefnu safnsins sem nú hefur náð þeim áfanga að komast í framtíðarhúsnæði og að setja upp heildarsýningu um þróun búhátt á síðustu öld.

 

Unnið verður úr niðurstöðum málþingsins með það í huga að forma starfsstefnu safnsins til næstu ára.