9. apríl 2015

Minjar um hörmulegan atburð

Á fjórða áratug síðustu aldar var gerð tilraun til nýsköpunar í íslenskri sauðfjárrækt. Flutt voru til landsins kynbótadýr af stofninum Karakul er nota skyldi til framleiðslu mjög verðmætra lambsskinna.

 

Kynbótadýrin (hrútar) voru flutt inn frá Þýskalandi - frá dýralæknisfræðistofnunnini í Halle. Menn voru í góðri trú að kaupa dýrin frá svo virtri stofnun.

 

En allt fór þetta á annan veg svo sem sagan greinir ...

 

Kynbótahrútum þessum fylgdi lungnapest sem svo grimmilega gekk að íslenska sauðfjárstofninum að hann var nærri falli. Ekki tókst að útrýma pestinni fyrr en niðurskurði og fjárskiptum hafði verið beitt á stórum svæðum landsins.

 

Allri framkvæmdinni fylgdi ómælandi fjárhags- og tilfinningalegt tjón bænda og gríðarlegur kostnaður við það að útrýma sjúkdómnum. Skal sú saga ekki rakin nánar hér enda hefur það víða annars staðar verið gert.

 

Tilefni þessa pistils er hins vegar að á dögunum afhenti framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands Landbúnaðarsafni tíu  upprunavottorð jafnmargra Karakúlhrúta sem til landsins komu, vottorð gefin út af stofnuninni í Halle.

 

Heimsíðungur skilur vel þá viðtakendur hrútanna er með þeim fengu slík vottorð, stimpluð í bak og fyrir með ættartré þeirra - að þeir hafi treyst því að alls öryggis hafi verið gætt ... og að hrútunum mætti veita samneyti við hið íslenska sauðfé sem hér hafði lifað kynslóð fram af kynslóð í aldalangri einangrun.

 

Vottorð þessi geta nú orðið til vitnis og minnis um það hve varlega þarf að fara þegar um sjúkdóma og heilbrigði mikilvægra dýra er að ræða.

 

Vottorðin eru meðal sérstæðustu og merkustu gripa sem safninu hafa borist síðustu misserin - og eru í flokki með eirpottinum sem Myklestad, hinn norski, brúkaði við útrýming fjárkláðans í byrjun síðustu aldar, og heimsíðungur á eftir að segja nánar frá.