5. mars 2015

Af velvildarmönnum og einnri hestakerru

Landbúnaðarsafn er þannig í sveit sett að ýmsir góðkunningjar leggja því lið. Því er það nefnt nú að á dögunum gerðum við Jóhannes Ellertsson tæknimeistari safnsins reisu suðrí Mosó.

 

Erindi þeirrar reisu var að nálgast prýðilega hestakerru sem þau góðu hjón Erlingur Ólafsson og Helga Kristjánsdóttir í Reykjadal höfðu boðið safninu til varðveislu og sýningar.

 

Meðfylgjandi myndir eru frá þeim degi, sem frá öðrum skar sig einnig á þann mátann að sól skein í heiði,  logn var og akvegir okkar allir auðir og þurrir sem á hásumri væri.

 

Hestakerra þessi, hefðbundinnar gerðar, er að stofni til frá Steindórsstöðum í Reykholtsdal. Erlingur eignaðist hana um 1970 og fékk Ólaf Jónsson bónda og smið á Kaðalsstöðum í Stafholtstungum til þess að lagfæra hana. Því er kerran nú eiginlega sem ný. 

 

Til þessara verka, eins og fleiri, kunni Ólafur betur en aðrir menn, hafði m.a. unnið á verkstæði hins kunna iðnjöfurs, Kristins vagnasmiðs.

 

Kerran er nú kominn á sinn stað í sýningu safnsins, þar sem hún leysti af hólmi aðra, sem komin var frá Fossi í Hrunamannahreppi. Sú var orðin lúin, en fær nú verðskuldaða hvíld í geymslu safnsins.

 

Hestakerrur voru nauðsynjagripir á hverjum bæ hérlendis á fyrri helmingi síðustu aldar en viku fyrir nýjum tíma er leið fram á sjötta áratuginn.

 

En það er af þeim hjónum Erlingi og Helgu að segja að þau hafa áður lagt safninu lið: Lánuðu því fyrir nokkrum árum forkunnarfagran UNIMOG-traktorbíl, sem mikla athygli hefur vakið í safninu. Þann bíl gerði Erlingur upp svo er sem nýr.