30. nóvember 2014

Barónsnautur - Gjöf Þorkels Fjeldsted og fjölskyldu

Nú þarf formála: Fyrir liðlega viku síðan hugðist ég færa eftirfarandi pistil  inn á síðu safnsins. Sem ég sit við tölvuna spyr ég lát vinar míns og mikils stuðningsmanns Landbúnaðarsafnsins, Þorkels í Ferjukoti. Ég felldi þá skrifin.

 

Í gær var Þorkell kvaddur af miklu fjölmenni frá Borgarneskirkju. Nú birti ég pistilinn í minningu Þorkels; óbreyttan eins og hann var hugsaður og skrifaður:

 

Skömmu fyrir opnun Landbúnaðarsafns í Halldórsfjósi fyrr í haust kom Þorkell Fjeldsted bóndi í ferjukoti færandi hendi.

 

Hann og fjölskyldan í Ferjukoti skenkti safninu að gjöf forláta byssu vel yfir eitt hundrað ára gamla. Með byssunni fylgdi svohljóðandi greinargerð Þorkels:

 

Byssa þessi er ekki landbúnaðartæki eins og traktor eða rakstrarvél en var engu að síður notuð um langan tíma til að færa björg í bú hér við Hvítá.

 

Baróninn á Hvítárvöllum, Charles Gouldrée-Boilleau, er þar bjó um fyrri aldamót, gaf Sigurði Fjeldsted í Ferjukoti byssuna árið 1900 fyrir dygga þjónustu en Sigurður var ráðsmaður barónsins þann tíma sem hann dvaldi hér á landi.

 

Síðan eignaðist Kristján Fjeldsted bóndi í Ferjukoti, sonur Sigurðar, byssuna, og notaði hana mest alla sína búskapartíð til veiða.

 

Síðasti umráðamaður byssunnar hefur verið Sigurður Fjeldsted veiðimaður, sonur Kristjáns og var byssan notuð til ársins 1985.  Með henni hafa verið skotin hundruð sela hér í Hvítá og út Borgarfjörð allt út í Þormóðssker úti fyrir Mýrum.

 

Til gæsaveiða var byssan notuð sem og til rjúpnaveiða en á síðustu öld var rjúpnaveiði þýðingarmikil atvinnugrein hér í Borgarfirði.

 

Byssunni fylgir burðarband, byssubelti og haglaskammtari auk mjög vandaðrar tösku, merkt S.F. [Sigurður Fjeldsted].

 

Fjölskyldan í Ferjukoti

30. september 2014

 

 

Gripurinn er forkunnar vandaður í hvívetna eins og ráða má af myndinni. Byssan er til marks um mikilvægan þátt í nýtingu landkosta, eins og fram kemur í greinargerðinni og á því fullt erindi meðal safn- og sýningargripa sem um það sama vitna.

 

Í Ferjukoti og þar við Hvítána er löng hefð fyrir fyrir veiðiskap og má þá geta þess að í Ferjukoti hefur Þorkell með fjölskyldu sinni haldið til haga ýmsum minjum um þann merka búhátt og raunar mótað þar safn til þeirrar merku sögu, Veiðiminjasafnið í Ferjukoti.

 

Sjálfur er Þorkell Fjeldsted hafsjór af fróðleik um veiði og veiðimenn, enda alinn upp við Hvítárveiðar og stundaði þær til margra ára. Hafa margir notið þess að skoða Veiðiminjasafnið við leiðsögn hans.