4. nóvember 2014

Er reksleggja Skallagríms fundin?

Um daginn greindum við frá því að Rita og Páll í Grenigerði við Borgarnes hafi við opnun sýningarinnar í Halldórsfjósi fært safninu sleggjuskalla.

 

Þennan grip fann Rita í gömlum öskuhaugi að Trönu (einn af Ferjubakkabæjunum í Borgarfirði) fyrir einum 50 árum. Þar lá hann ekki mjög djúpt, sagði Rita, sem tók gripinn til handargagns, og hefur varðveitt síðan.

 

Heimsíðungur er búinn að velta gripnum töluvert fyrir sér síðan

 

Það sem athygli skrifarans vakti var einkum það hvernig munninn er slitinn: áberandi kúptur flötur hefur orðið til á honum og járnið elst upp til brúnanna. Þá er sleggjan/hausinn mjög óregluleg að gerð er bendir til handsmíði og fornrar gerðar.

 

Við athugun í Sarpi, hinum miðlæga grunni menningarminja í íslenskum söfnum er einmitt gripur sem Trönusleggjan líkist mjög, sjá

http://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=334137 

 

Þar er einfaldlega talin fara reksleggja Gests Oddleifssonar:

 

Sleggjunum tveimur svipar saman, einkum hvað snertir form munnans og hvernig hann er slitinn.

 

Löngun hefur því heimsíðungur til þess að ætla að þarna hafi Rita í Grenigerði, þá í Trönu, fundið mjög fornan grip, reksleggju sem notuð hafi verið við járnvinnslu og járnsmíði.

 

Út af stendur að rekja för gripsins í gegnum söguna. Grunur beinist að ábúendum þarna á bænum sem hafi stundað járnsmíði meira en aðrir menn. Algengt var (og er) að iðnir gangi á milli ættliða, mann fram af manni.

 

Á milli Trönu og Borgar á Mýrum eru ekki margir kílómetrar og leiðin greiðfarin (kirkjuleið Trönunga).

 

Tilgátan um það að komin væri þar reksleggja Skallagríms á Borg er ekki galnari en hver önnur. Hún verður þó hvorki sönnuð né hrakin.

 

Á tímum mikils járnskorts er ekki ósennilegt að menn hafi farið með járngrip eins og þennan sem sjáaldur augans og tryggt að hann færi ekki úr fjölskyldunni - fyrr en þá að honum var fleygt (etv fyrir gáleysi) þegar erlent járn var orðið auðfengið og viðráðanlegt í verði...

 

Ef til vill fáum við hjálp við að aldursgreina gripinn.

 

Þangað til aldursgreiningarniðurstaðan liggur fyrir hallast heimsíðungur að kenningunni um Skallagrím.