7. október 2014

76 ára gamall mjólkurfitumælibúnaður

Um langa hríð hefur heimsíðungur Landbúnaðarsafns haldið upp spurnum um búnað sem tengist ráðunautastarfsemi  hérlendis og útbreiðslu þekkingar og nýrra verkhátta.

 

Ekki er nú hægt að segja að árangurinn hafi orðið mikill - og þó. Saman hefur safnast nokkuð af gripum úr þessum flokki. Ef til vill getum við sett upp sýningu þar um innan tíðar.

 

Það gerðist hins vegar á dögunum að Brynjólfur í Hlöðutúni vék að safninu tveimur kössum, öðrum úr pappa en hinum úr tré, og hafði sá sýnilega ekki verið opnaður. Kassinn var merktur Nautgriparæktarfélagi Stafholtstungna, Neðranesi.

 

Við urðum spenntir að opna trékassann sem börn á jólum. Upp kom dökk flaska full með safa.  Þar oní kassanum var reikningur frá Búnaðarfélagi Íslands  til Nautgriparæktarfélagsins, dagsettur vorið 1938, upp á 19 kr.  

 

Í pappakassanum var búnaður til þess að mæla fitu í mjólk eftir sk. Höyberg-aðferð: smáglös, prímus, hitamælir og fleira smálegt ásamt rækilegum leiðbeiningum á dönsku því dönsk var aðferðin.

 

Nú eigum við eftir að kynna okkur aðferðina nánar og að raða hlutunum saman líkt og gert var þegar þeir voru notaðir.

 

Á þessum árum voru nautgriparæktarfélög komin vel á legg hérlendis. Mörg þeirra réðu sér menn, e-sk ráðunauta,  til þess að fara á milli bæja og mæla nyt kúnna og skrá hana, einnig til að mæla mjólkurfitu sem þá var hinn mikilvægasti eiginleiki mjólkurinnar.

 

Allar þessar mælingar urðu síðan grundvöllur að vali ásetningskvígna og kynbótanauta eftir þar til gerðum reglum þáagildandi fræða - og urðu undirstaðan að reglulegum framförum í afurðasemi  kúnna. Fóðrið var líka mælt og vegið og skráð.

 

Þetta var einni fyrsti þáttur íslenskrar nautgriparæktar á félagslegum grundvelli, þáttur sem enn í dag er grundvöllur ræktunarinnar þótt nú sé beitt allt öðrum og hraðvirkari aðferðum við mat og mælingar vegna kynbótastarfsins.

 

Kassarnir tveir frá Nautgriparæktarfélagi Stafholtstungna eru því safninu mikill og góður fengur. Þeir létta okkur að segja söguna og munu fá sinn stað í sýningum safnsins þegar tímar líða.

 

Meðfylgjandi myndir eru af gripunum frá Hlöðutúni.

 

Það skal tekið fram að þetta er ekki í fyrsta skipti sem Brynjólfur og fjölskyldan í Hlöðutúni leggja safninu lið með verðmætum minjum.

 

Skammt er að minnast þess er fjölskyldan færði safninu skrúfstykkið sem líklega var komið úr smiðju Torfa Bjarnasonar í Ólafsdal og sagt var frá hér á síðunni.