28. ágúst 2014

Af búferlum

Þessi fallegi síðsumarsdagur var valinn sem Flutningadagurinn mikli - aðalfardagur Landbúnaðarsafns.

 

Mannsterkir mættum við árla dags til flutninga og áður en dagur var runninn að nóni höfðum við flutt um það bil 14,4 tonn af járni þrútnu af menningarsögu íslenskra sveita.

 

Flutningasveitina skipuðu PJ-bygginga- og hagleiksmennirnir Pétur Jónsson, Kristján Ingi Pétursson og Óðinn Guðmundsson, auk þeirra Unnsteinn Elíasson sérlegur grjótlistamaður safnsins, Jóhannes Ellertsson aðalvélameistari og hagleikssmiður safnsins og talsmaður þess og áhyggjuberi Bjarni Guðmundsson.

 

Flutningar gengu afar vel og lipurlega, en heimsíðungur viðurkennir þó að hafa svitnað töluvert og því var gott að komast í bað á eftir...

 

Landbúnaðarsafn þakkar þessum góðu félögum snöfurmannlega aðstoð og hugvitsamlegar lausnir á verkum sem sumir töldu að væru óleysanleg ... LbhÍ fær líka góðar þakkir fyrir lán á flutningatækjum.

 

Þannig var nú það ...