19. ágúst 2014

Af flutningum safngripa

Fimmtudaginn 14. ágúst sl. var rúllað með fyrstu dráttarvélina á hinn nýja stað safnsins. Jóhannes Ellertsson vélameistari ræsti Farmall Cub safnsins, ættaðan frá Ytri-Skeljabrekku, og snyrtan af Hauki Júlíussyni og hans mönnum á sinni tíð.

 

Fyrir eigin afli ók gekk Kubburinn á hina nýju slóð, og var ekki annað að sjá og heyra en að honum félli  dável við fyrstu kynnin.

 

Og þar sem Farmallinn þokast inn fyrir dyrnar var áður haughús sjötíu kúa eða svo, hvar í mykjan gat náð í 2-3 m hæð. Nú er hún öll á brott, búið að háþrýstiþvo rýmið allt og viðra í mörg ár.

 

Síðan kom Ási málari og úðaði hvítum farva á loft og veggi og lakki á gólf. Hvíti farvinn er raunar eftirgerð kalkmálningar en með kalkmálningu var Hvanneyrarfjósið "kvíttað" flest vor áður en gerviefnamálningar urðu alsiða.

 

Þarna í haughúsinu er hátt til lofts og vítt til veggja, þar verður helsti selskapur forndráttarvélanna vistaður. Stórt plan er komið þar fyrir utan og eitthvað munum við punta upp á það.

 

... Og þannig nuddum við Jóhannes áfram með góðra manna hjálp. Það eru tugir, og raunar hundruðir gripa sem flytja þarf, allt frá léttum meisum og handverkfærum yfir í brautryðjendadráttarvélar sem vega hartnær 3 tonn ... engar saumavélar það....