12. ágúst 2014

Ljáðu mér ljá í ljána . . .

Um þetta leyti árs birta menn gjarnan myndir af veiði sinni, fiskbröndum raðað snoturlega í grasið.

 

Heimsíðungur er hins vegar lítill veiðimaður en til þess að fylgja tískunni notaði hann blíðviðrið í gær til þess að flokka, merkja, skrá og ljósmynda hluta af ljáasafni sem honum hefur tekist að nurla saman á allmörgum árum.

 

 

Glöggir lesendur síðunnar hafa ugglaust tekið eftir því að klifað hefur verið á því hvort einhverjir eigi afbrigðilega gamla sláttuljái. Heimsíðungur er nfl. að reyna að skrifa bók um slátt og er söfnunin liður í gagnaöflun vegna bókarskrifanna. 

 

Hjartagóðir og hirðusamir heimildarmenn hafa fært undirrituðum ljái, suma mjög sérstæða og merkilega,  og upplýsingar um sögu þeirra.

 

Meðfylgjandi mynd sýnir hluta ljáasafnsins.

 

Enn er minnt á þessa söfnun, ef einhverjir skyldu luma á merkilegum gripum, sama þótt vel séu ryðgaðir.

 

Ég skal þó taka fram að ef nafnið BRUSLETTO er þrykkt í þjó ljáanna þá erum við orðin vel sett af þeim - það eru gömlu Eylandsljáirnir frá Geilo í Noregi.

 

Bestu þakkir - og kveðja

 

Bj.Guðm.