6. júní 2014

Gravely - tvíhjólatraktorar

 

Á fyrstu árum vélvæðingar íslensks landbúnaðar virðist hafa orðið til nokkur áhugi á tveggja hjóla dráttarvélum, einkum til sláttar.

 

Upp úr 1930 mátti sjá auglýsingar um slíkar vélar. Þá var Jóhannes Reykdal kominn með Centaur-vélarnar (svo og Thor Jensen), sem gjarnan voru nefndar mótorplógar, þótt við þær mætti tengja fremur fjölbreytta flóru verkfæra, m.a. til heyverka.

 

 

Í bréfum Árna G. Eylands kemur fram að hann hafði litla trú á sumum þessara smávéla, og réði þeim er spurðu jafnvel frá því að kaupa þær. Kom þar líklega til smæð þeirra og takmarkað afl til annarra en léttari búverka, svo sem heyskapar.

 

Það breytti því þó ekki að einhverjir keyptu smávélarnar og notuðu þær til sláttar. Furðu litlar heimildir eru til um þær hérlendis, líkt og þær hafi ekki verið teknar alvarlega, nema á tilraunastöðvum í jarðrækt er þar urðu þær eitt helsta hjálpartækið, t.d. þýska gerðin Agria.

 

Í garðyrkju breiddust tveggja hjóla dráttarvélar töluvert út enda sérlega hentugar til ýmissa verka þar, svo sem jarðvegstætingar og ræktunarhirðu.

 

Góðkunningi safnsins gaukaði að því bæklingum um daginn, bæklingum er varða smávélategundina Gravely. Í bæklingunum má glöggt sjá hversu fjölbreyttar vinnuvélar voru fáanlegar fyrir þessa tveggja hjóla dráttarvél.

 

Má segja að þær hafi verið til allra bú- og garðverka, jafnvel til skógarhöggs (sawing tool), þótt aðeins væri aflvélin 5 hestöfl.

 

Meðal annars buðu þeir Gravely-menn sérstæðan plóg, Gravely Rotary Plow, sem kalla mætti hverfiplóg (sbr. hverfistein); tvö gagnstæð moldverpi snerust á lóðréttum ás, stungu jarðveginn og blönduðu hann upp án þess að hvolfa plógstrengnum lítt blönduðum líkt og hefðbundnir plógar gera.

 

Gravely-vélarnar voru smíðaðar á fyrri hluta síðustu aldar vestur í Vestur Virginíu, BNA, en síðan hvarf kompaníið inn í stærra fyrirtæki (Studebaker), sjá t.d.  

www.wikipedia.org/wiki/Gravely_Tractor 

 

Nokkrar Gravely-vélar komu til Íslands og nú vinnur kunningi okkar að því að bjarga slíkri vél enda kannast hann mæta vel við tegundina: Hún er af þeirri tegund sem notuð var við umfangsmikil ræktunarstörf á æskuheimili hans.

 

Landbúnaðarsafn hefur sárafáar heimildir um notkun tveggja hjóla dráttarvéla við almenn bústörf hérlendis, svo sem slátt og heyskap. Það eru eiginlega bara myndaheimildir frá Korpúlfsstöðum og svo hefur hann Þórarinn Jónsson frá Hamri í Þverárhlíð getið þeirra í kafla sínum um Ferguson í bókinni: „Og svo kom Ferguson“.

 

Fengur væri af því að heyra frá fleirum ef byggju yfir reynslu af notkun þessar sérstæðu vélar - og annarra tvíhjóla traktora.