15. maí 2014

Öns við steyputunnu-inningu

 Á dögunum spurðumst við hér á síðunni fyrir um steyputunnur líkt og algengar voru til sveita á fyrri tímum steinsteypugerðar (sjá síðustu færslu).

 

Nokkrir ágætir heimildarmenn brugðust fljótt við og bættu í sarp okkar, bæði hvað snerti gerð rambalda steyputunnunnar sem og notkun hennar.

 

Ljósmyndir bárust og upp kom ábending um tunnur sem notaðar höfðu verið á moksturstæki dráttarvéla, er þá nýttust um leið til þess að koma hrærðri steypunni í mót með vélarafli.

 

Hvað sérstæðust var ábendingin, studd ljósmyndum, um norðlenska tækni við að knýja steyputunnuna, raunar frá Akureyri laust fyrir miðja síðustu öld.

 

Það voru ekki allir sem höfðu aðgang að hesti til þess að velta tunnunni með reipi, svo sem hvað algengast mun hafa verið.

 

Í hinu sérstæða dæmi var steyputunnunni breytt í stigvél, líkt og nú tíðkast í líkamsræktarmusterum: Klampar voru festir utan á tunnuna, burðarásar hennar þénuðu einnig sem handfang fyrir stígarann, sem þannig tróð tunnuna líkt og um sk. hestagang væri að ræða.

 

Ég leyfði mér að krota lausnina upp svo sjá mætti hversu verkaði.

 

Satt að segja finnst mér lausnin eitursnjöll. Nú er spurt hvort fleiri kannist við þessa sérstæðu aðferð við að blanda steypu?

 

Hin norðlenska ábending er enn til marks um það hve mikið af orku fer til spillis í líkamsræktarsölum nútímans, orku sem vel mætti líka nýta til þarfa í daglegu amstri okkar - í stað þess að auka bara á gróðurhúsaáhrifin.

 

Við þiggjum fleiri ábendingar um steypuhræritækni til sveita á síðustu öld en þökkum fyrir þær sem borist hafa...