8. maí 2014

Steinsteypugerð - Hræritunna

Steinsteypa tók að ryðja sér til rúms í sveitum fyrir einni öld eða svo. Verkfræðingar að sunnan héldu erindi um steinsteypu á bændanámskeiðum á Hvanneyri á öðrum tug síðustu aldar og steinsteypugerð var kennd við Hvanneyrarskóla.

 

Áður en til sögunnar komu steypuhrærivélar var steypuefnið hrært með handafli en síðar í sérstökum tunnum, sem snúið var með hestafli. Þótti af því mikill léttir því steypa er níðþung á hendi.

 

Flest þessara áhalda eru nú löngu að engu orðin. Fyrir nokkrum árum áskotnaðist safninu þó tunna onúr Skorradal, alheil er sjálf tunnan og vel þrifin og með farin. Tréverkið er hins vegar löngu horfið.  

 

Fáar ljósmyndir eigum við af slíkum búnaði frá velmektardögum hans, eiginlega bara eina.

 

Heimsíðungur hefur eftir minni sínu rissað upp þá gerð hræribúnaðar sem hann man úr æsku sinni og fylgir hún með þessum pistli.

 

Við höfum hins vegar áhuga á að vita hvort einhver 644 lesenda heimasíðunnar lumi á slíkri mynd eða svo glöggu minni að treysti sér til þess að lýsa gerðinni svo vel að eftir mætti hugsanlega smíða undir téða hræritunnu... ?

 

Heimurinn breyttist með komu steinsteypunnar til húsbygginga, þ.m.t. útihúsabygginga, svo þess vegna væri gaman að komast nær áhaldafræðinni.

 

Lofið mér að heyra frá ykkur ef þið getið lagt lið.

 

Bestu þakkir

 

.... síminn er 844 77 40 eða bjarnig@lbhi.is