12. apríl 2014

Af Rússunni - afar rörum traktor

Um nokkurra ára skeið hefur safnið varðveitt í geymslu sinni  bárðdælska dráttarvél af gerð sem er afar sérstæð að gerð. Við geymdum vélina fyrir hann Eirík Sigurðsson frá Sandhaugum, sem á hana.

 

Dráttarvélin er af gerðinni XT3, rússnesk, flutt inn af Birni og Halldóri fyrir hartnær hálfri öld.

 

Safnið á hins vegar aðra dráttarvél sömu gerðar og í mjög ágætu standi eftir búverk í þágu fyrri eigenda sinna, bændanna á Varmalæk í Bæjarsveit. Þeir gáfu safninu vélina fyrir allmörgum árum.

 

Eiríkur hyggst pússa vél sína upp. Til þess þarf ekki mikið því svo vel var hún hirt þar norðurfrá. Eiríkur vann mikið með vél sinni og segir hana hafa verið ágætan grip.

 

Varmalækjarvélin er líka í fínu ástandi. Þess vegna ætlum við ekkert að gera við hana annað en að halda henni í góðu horfi og helst bregða í akstur þegar vel stendur á.

 

XT3 höfðu margt til síns ágætis: Voru góðar í gang í kuldum þótt dísel væru, gírakostur fjölbreyttur og svo mátti snúa sætinu til hagræðis við vinnu með baktengdum verkfærum. Ætli þær hafi ekki verið ein 14 hestöfl; mótorinn er undra stuttur. Ganghljóðið vekur jafnan athygli gesta.

 

Eftir að Eiríkur sótti vélina sína fabúleraði heimsíðungur á "face-book" um málin, fer sú fabúla hér á eftir:

 

 

"Þær höfðu setið þarna hlið við hlið í dagvistinni, í norðurhorninu við dyrnar. Önnur hafði unnið sín bestu verk í Bæjarsveit, á gagnmerku stórbúi, þar sem hún gekk til heyverka undir stjórn meistara síns, er þekktur var fyrir að kunna skil á öllu og að setja saman snjallar vísur og kvæði.

 

Heil var hún en lúin. Hin átti daga sína norður í Bárðardal, þar sem hún hafði gengið til heyverka í sól og sunnanblæ en á vetrin séð meiri snjó en jafnvel sást í fæðingarsveit hennar - langt í austri þar sem fáir réðu yfir mörgum en allir trúðu á systemið.

 

Á bænum þar í Bárðardal var strákur sem gerði henni alltaf vel, gaf henni meira að segja nýjan farva. Svo komu árin þegar hún saknaði þessa handahlýja pilts - vonaði alltaf að hann kæmi og sækti hana til þess að vera henni góður, eins og í sveitinni fyrir norðan.

 

Og svo kom hann í gær á blökkum fáki sínum, dró á eftir sér Gullvagn; pilturinn leiddi hana til sætis á vagninum og þeysti með hana suður, eins og margra draumur var, líka norður í Bárðardal.

 

Úr gömlum augum hennar hrutu tár: Var það út af endurfundunum og hlökkunargleði yfir komandi sumardögum samvista, rétt eins og voru heima í Bárðardal, eða var það vara af vindinum sem sauð í eyrum? 

Eiríkur Sigurðsson frá Sandhaugum í Bárðardal var kominn til þess að sækja Rússuna sína í safngeymsluna, hina fágætu rússnesku dráttarvél XT3 - til þess að hlú að henni ... Við hlökkum til að hitta þau aftur á slætti"...