1. apríl 2014

Árshátíð í Landbúnaðarsafni

Grunnskóli Borgarfjarðar - Hvanneyrardeild - hélt árshátíð sína þann 27. mars sl.  Fór hún fram í suðurhlöðu Halldórsfjóss, sem er fyrirhugað fjölnotarými safnsins.

 

Unga fólkið sýndi þarna tvö leikverk við mikinn fögnuð viðstaddra. Líklega voru um 100 manns þar saman komin. Áhorfendasætin eru gömlu súgþurrkunarstokkarnir. Vissulega var nokkuð svalt í samkomusalnum, óupphituðum, en allir voru vel klæddir.

 

Meðfylgjandi myndum af hátíðinni hnuplaði heimsíðungur af FB-síðu Kristínar Jónsdóttur ljósmyndara á Hálsum í Skorradal.  

 

Fjölnotarýmið - Suðurhlaðan - virðist henta ágætlega fyrir samkomur sem þessar og var gaman að fá unga fólkið í heimsókn.

 

Fyrr í vetur komu nemendur skólans í heimsókn í safnið og kynntu sér helstu leyndardóma þess og fyrir hálfum mánuði komu nemendur leikskólans Andabæjar í safnheimsókn.  

 

Í hópi nemenda Grunnskólans eru m.a. miklir áhugamenn um forndráttarvélar. Okkur safnköllum þykir gott að vita af þeim áhuga.