17. mars 2014

Landmælingakíkir til safnsins

Stefán Ólafsson byggingameistari í Litlu-Brekku færði safninu fornan landmælingakíki (theodolid). Saga kíkisins er sú að hann var í eigu Búnaðarsambands Borgarfjarðar, hvar hann var notaður til landmælinga vegna ræktunarstarfa.

 

Áhöld þessarar gerðar voru á tímum framræslu og annarrar ræktunar meðal þörfustu áhalda héraðsráðunautanna og eru því hluti af starfssögu þeirra og ræktunarsögu sveitanna.

 

Bjarni Arason ráðunautur og lengi frkvstj. Búnaðarsambands Borgarfjarðar lét Stefán hafa kíkinn þegar Stefán fór fyrir byggingarflokki Búnaðarsambandsins á síðustu öld. Stefan notaði kíkinn til þess að mæla fyrir útihúsum ofl.   Kíkirinn hefur því komið víða við í héraði.

 

Gripurinn er þýskur, frá firmanu Breithaupt í Kassel, en það var stofnað 1762.  Kíkirinn er í ágætu standi svo í fljótu bragði virðist mega mæla með honum fyrir skurði, vatnsveitu, túni eða útihúsi.

 

Við þökkum Stefáni kærlega fyrir gripinn og hugulsemina.

 

Það liggur hins vegar utan skýrslu virðulegs safns, sem heimsíðungur færði á FB-síðu sína í dag, þessu tengt:

 

...naut heimsóknar Kela í Koti og Stebba í Litlu-Brekku (Ragna-Stefán Litla Brekka) í dag. Stefán færði Safninu fornan landmælingakíki, sem nánar verður sagt frá á heimasíðu safnsins. Hins vegar rifjaðist þá upp fyrir mér starfsheitið stöngull: þýðingarmikið starf við ræktunarmælingar áður fyrr en nú horfið (að mestu). Stöngull hljóp um með mælistöngina svo ráðunauturinn gæti mælt halla, vegalengdir ofl. í mörgum punktum. Stönglarnir voru misfúsir til hlaupanna.
Sagan geymir ráðunaut, horfinn af heimi, sá var bæði nákvæmur og kröfuharður, svo stöngli hans þótti nóg um. Greip stöngull þá til þess ráðs að missa af og til bæði heyrn og sjón gagnvart skipunum mælingaráðunautsins, sem átti þá það eitt ráð að hlaupa af stað til þess að ná athygli stöngulsins. Stöngull gætti þess hins vegar að kveikja á athyglinni áður en ráðunautur kæmi of nærri. Skapaði þetta báðum nokkra tilbreytingu í annars fremur einhæfum sumarstarfa. 
Starfsreynsla þessa stönguls náði hins vegar ekki mörgum dögum. Hann kaus sér annan vettvang. Mun það hafa orðið ráðunautnum mesta gleði sumarsins.