2. september 2013

Áhöld til lokræsagerðar - Veist þú um einhver slík?

Þessa dagana rignir ósköpin öll hér í Borgarfirði og þjóðtrúarspár benda til þess að þannig muni haustið verða. Reikar þá hugur að því hvernig vatni má veita frá ræktunarlöndum.

 

Lokræsi eru ein leiðin. Í upphafi ræktunaraldar voru þau gerð með handverkfærum. Síðar komu til hestadregin tæki (örfá dæmi, sjá t.d. bls. 44 í nýju bókinni okkar, Frá hestum til hestafla) áður en vélar komu til sögu.

 

Ögn hefur verið sagt frá verkfærum og tækjum til lokræsagerðar hér á síðunni eins og sjá má með leit í textum hennar.  

 

Á Fasbókarsíðu Landbúnaðarsafnsins hafa síðustu daga lifað tveir pistlar um áhald sem kom í ljós vestrá Fjöðrum nýverið og reyndist vera lokræsaspaði.

 

Áhaldið hefur 20 cm breiðan skera en skaftið mynda tvö löng og samhliða vinkiljárn, um 1,5 m á lengd. Þau eru tengd saman með járnteinum þannig að áhaldið lítur út eins og stigi, með skerann neðst en handfang efst, handfang sem nú er horfið.

 

Virðist hafa verið stigið í þverrimarnar þegar spaðanum var beitt. Heimildarmaður minnist búnaðar nest á spaðanum sem gerði það mögulegt að ná upp hnausunum sem stungnir voru.

 

1. Nú langar okkur Landbúnaðar-söfnunga að vita hvort einhver kannast við hliðstæðan lokræsaspaða?

 

2. Við leitum líka að fleiri gerðum lokræsaspaða fyrir handafl. Ef til vill leynast enn í skoti á bæ eða í borg spaðar frá tímum afa eða langafa, er stungu lokræsi.

Flestir spaðanna minntu á stunguskóflur með undarlegu blaði (mjórra).

Þakksamlega mundum við þiggja slíka!