8. ágúst 2013

Sérstaða Ólafsdals - Úr erindi á Ólafsdalshátíð su. 11. ág. nk.

Heimsíðungur ætlar að segja sögur af Torfa Bjarnasyni, verkfærunum hans og vinnuhestunum í Ólafsdal á Langaloftinu þar kl. 16 á sunnudaginn kemur.

 

Til þess að gefa nokkra hugmynd um það sem fjallað verður um fara hér á eftir lokaorð erindisins. Erindið er að verulegu leyti byggt á efni sem féll til við vinnslu bókarinnar Frá hestum til hestafla (sjá www.uppheimar.is )

 

Þótt hér hafi einkum verið fjallað um tæknilegu hlið breyttra verkhátta, sem Torfi í Ólafsdal stóð að, er þáttur kunnáttunnar, bæði bóklegrar og verklegrar, engu þýðingarminni. Nemendur, búnir nýrri þekkingu, og í mörgum tilvikum einnig nýjum verkfærum, réðust til starfa víða um land og breiddu þannig út hina nýja verkhætti . . .

 

. . . Bændur sáu hvað gera mátti, og þótt ýmsum hrysi hugur við kostnaði við verkfærakaup, urðu nýstofnuð búnaðarfélög til þess að deila þeirri byrði á marga. Hér varð því til gagnvirt umbótakerfi.

 

En síðan leið tíminn og fleiri umbótaaðilar komu til sögunnar:  Fleiri búnaðarskólar, ný samtök bænda, gróðrarstöðvarnar (er voru eins konar tilraunastöðvar þeirra tíma), auk innflutnings nýrra verkfæra og áhalda frá útlöndum þar sem mikið var að gerast í hönnun og smíði landbúnaðarverkfæra. Hestarnir urðu vinnudýr og aflgjafar þeirra rétt eins og verið höfðu lengi hjá erlendum bændum. Tími hinna eiginlegu vinnuhesta hérlendis gekk í garð. 

 

Sérstaða Ólafsdalsskólans miðað við aðra innlenda búnaðarskóla og áhrif þeirra fólst einkum í verkfærasmíði Torfa. Er innflutningur erlendra verkfæra hófst að ráði veikti hann án efa stöðu smiðjunnar í Ólafsdal. Með aflögn skólans leið verkfærasmíðin þar undir lok. Skólinn hafði hins vegar miðlað því sem meiru skipti er til lengdar lét: Umbótahug og kunnáttu í beitingu og meðferð verkfæranna.

 

Starf Torfa Bjarnasonar fólst að verulegum hluta í því sem nú er kallað þekkingaryfirfærsla (technological transfer). Þar  stendur Ólafsdalsskólinn sem kennslu- og miðlunarstofnun, verkfærasmiðja, verslun og að vissu marki þróunarstofnun miðlægt í umbótastarfi áranna 1880-1910.

 

Þær verkháttaumbætur voru með sínum hætti þýðingarmikill hluti sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á þeim árum.